141. löggjafarþing — 48. fundur,  6. des. 2012.

ráðstafanir í ríkisfjármálum.

468. mál
[20:03]
Horfa

Ragnheiður E. Árnadóttir (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég ætla að byrja á því að gera ekki athugasemd við það að hæstv. forseti láti klukkuna telja niður. Við erum nú vön því en mér finnst hæstv. forseti vera helst til örlátur, þar sem ég byrjaði á fimm mínútum, en ég geri ekki athugasemd við það heldur.

Það sem hv. þingmaður var að nefna hér varðandi flugvélapöntun Icelandair er hárréttur punktur. Það var kostulegt að heyra hæstv. fjármálaráðherra koma hér í dag, slá sér á brjóst og segja: Ha ha, það er greinilegt að þeir hlusta ekki á bölmóðinn í stjórnarandstöðunni. En það er margra ára ferli að kaupa flugvél. Ég hef heimsótt Boeing-verksmiðjurnar og það er afar fróðlegt að koma þangað. Að horfa á flæðilínur flugvéla og þetta voru flugvélar sem höfðu verið pantaðar fyrir sjö, átta, níu eða tíu árum og voru núna að koma út af færibandinu. Þú pantar ekki flugvél eins og þú pantar þér far með flugvél og þetta ætti fjármálaráðherra að vita.

Auðvitað eru framtíðaráætlanir mikilvægar. Auðvitað er framtíðarsýn mikilvæg og það var fróðlegt að hlusta á einhvern hérna í dag segja: Já, það skiptir máli hverjir stjórna. Það var einhver úr stjórnarliðinu. Það er kannski það eina sem ég get verið sammála þessu fólki hér í dag um, eftir atkvæðagreiðsluna um fjárlögin. Já, það skiptir máli hverjir stjórna. Jafnvel þótt ég og hv. þingmaður séum ekki alltaf sammála, og honum sé mikið í mun að segja heiminum frá því að Framsóknarflokkurinn sé ekki alltaf sammála Sjálfstæðisflokknum, þá held ég að það séu margir skynsamir framsóknarmenn enn þá til sem sjá að stefna núverandi ríkisstjórnar er algjörlega fráleit og að sú skattstefna sem ég og minn flokkur boðum sé eitthvað sem við gætum frekar náð samkomulagi um.