141. löggjafarþing — 48. fundur,  6. des. 2012.

ráðstafanir í ríkisfjármálum.

468. mál
[20:48]
Horfa

Sigurður Ingi Jóhannsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það sem ég vildi einnig spyrja hv. þingmann um voru sóknargjöldin, sem hann fjallaði meðal annars um í ræðu sinni, og það sem má kannski kalla eyrnamerkta skatta og umræðuna um þá. Í haust eða síðsumars lagði SÁÁ til að hluti af áfengisgjaldinu yrði eyrnamerktur til endurhæfingar og innlagnar þeirra sem hefðu ánetjast áfengi, samtökin töldu að það væri eðlilegt að nota hluta af þeim tekjum til þess. Um þetta varð nokkur umræða og sitt sýnist hverjum um eyrnamerkta skatta.

Í þessu frumvarpi kemur fram að til stendur að hækka útvarpsgjaldið. Engu að síður skilar útvarpsgjaldið sér ekki til Ríkisútvarpsins heldur virðist það vera skattur sem ríkið tekur að hluta til til sín og í vaxandi mæli, miðað við að hér er lagt til að það hækki verulega.

Mér hefur fundist annað gilda um sóknargjöldin. Ég vildi fá álit hv. þingmanns á því hvort hann telji þetta vera hreinlega ólögmæta innheimtu eða upptöku á eignum safnaðanna í landinu. Áður fyrr var það auðvitað þannig að gjaldkerar safnaðanna innheimtu gjaldið sjálfir, síðan var gerður samningur við ríkið um að það sæi um innheimtuna. Á liðnum árum, fram til þessa árs, hefur ríkið innheimt fullt gjald en tekið 2 milljarða af tekjum safnaðanna í landinu til sín. Maður skyldi ætla að ef menn ætluðu að létta byrðum af fólkinu í landinu hefði í raun átt að skila þessum 2 milljörðum til þess aftur, hreinlega lækka safnaðargjöldin í stað þess að ríkið væri að nota þetta sem viðbótarskattheimtu. Er þarna verið (Forseti hringir.) að reyna að fela hækkun á skattprósentu í landinu með því að taka inn eyrnamerkta skatta og innheimta þá að fullu (Forseti hringir.) en skila þeim ekki til þeirra sem eiga skattinn?