141. löggjafarþing — 49. fundur,  8. des. 2012.

dómstólar.

475. mál
[13:19]
Horfa

innanríkisráðherra (Ögmundur Jónasson) (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Á þessu máli eru náttúrlega ýmsar hliðar. Hugsunin og tillagan er grundvölluð á álitsgerð dómstólaráðs og Hæstaréttar sjálfs, sem hefur kannski besta yfirsýn yfir hvernig störfunum er háttað og hvernig reynslan og fjármunirnir nýtast best. Það eru náttúrlega hagsmunir Hæstaréttar að láta málin ganga eins greiðlega fyrir sig og kostur er. Þá er hugsun þessara aðila sú að heppilegt sé að geta nýtt starfskrafta þeirra aðila sem hafa langa reynslu af þessum störfum.

Síðan er önnur hlið á þessu líka, um árabil hefur það tíðkast að einstaklingar eru settir í Hæstarétt tímabundið og hlaða þannig upp reynslu en líka ákveðnu forskoti gagnvart öðrum sem eru að sækja um stöður við dómarastörf í Hæstarétti. Ég eygi því ákveðna jafnræðishugsun í þessu fyrirkomulagi, að þegar þarf að setja hæstaréttardómara tímabundið sé það gert eftir því sem kostur er úr röðum þeirra sem hafa gegnt þessu embætti, en ekki skapað forskot með þeim hætti sem tíðkast hefur á undanförnum árum. Það er alla vega ein hlið á þessu máli sem ég hef komið auga á. Meginhugsunin er sú að nýta reynslu manna sem best og á sem markvissastan hátt.