141. löggjafarþing — 49. fundur,  8. des. 2012.

fæðingar- og foreldraorlof.

496. mál
[13:35]
Horfa

velferðarráðherra (Guðbjartur Hannesson) (Sf):

Hæstv. forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um breytingar á lögum nr. 95/2000, um fæðingar- og foreldraorlof, með síðari breytingum.

Markmið frumvarpsins er að hefja endurreisn fæðingarorlofskerfisins þannig að kerfið verði í það minnsta jafnsett því fæðingarorlofskerfi sem var í gildi fyrir árið 2009. Ljóst er þó að kerfið verður ekki endurheimt nema í áföngum. Jafnframt er markmið frumvarpsins að lengja þann tíma sem foreldrar geta verið heima með barni sínu.

Í kjölfar þrenginga í ríkisfjármálum haustið 2008 þótti ljóst að draga þurfti úr útgjöldum Fæðingarorlofssjóðs. Var því þegar í desember 2008 gripið til ráðstafana sem leiða áttu til sparnaðar í útgjöldum sjóðsins. Þar á meðal var hámarksfjárhæðin sem foreldrar gátu átt rétt á úr Fæðingarorlofssjóði lækkuð en ári síðar var hlutfalli af meðaltali heildarlauna eða reiknaðs endurgjalds sem foreldri sem er á vinnumarkaði á rétt til í fæðingarorlofi einnig breytt.

Í samræmi við markmið laganna um fæðingar- og foreldraorlof hefur ávallt verið lögð áhersla á mikilvægi þess að tryggja að foreldrar hafi sömu tækifæri til að sinna fjölskyldu og starfi utan heimilis. Reynslan hefur sýnt að einn af lykilþáttum þess að unnt sé að samræma fjölskyldu- og atvinnulíf er að foreldrar eigi jafnan rétt til fæðingarorlofs. Í þessu sambandi þykir ekki síst mikilvægt að börnum séu tryggð tækifæri til samvista við báða foreldra sína. Þrátt fyrir nauðsynlegar ráðstafanir til að draga úr útgjöldum Fæðingarorlofssjóðs hafa stjórnvöld verið meðvituð um að þær aðhaldsaðgerðir sem ráðist hefur verið í með lagabreytingum frá því haustið 2008 kunni að ganga gegn framangreindum markmiðum laganna. Á það sérstaklega við um hámark á greiðslum úr Fæðingarorlofssjóði sé hámarkið ákveðið mjög lágt miðað við tekjur foreldra á innlendum vinnumarkaði.

Velferðarráðuneytið hefur á undanförnum missirum fylgst mjög náið með þróuninni á töku fæðingarorlofs meðal karla og kvenna. Svo virðist sem feðrum sem taka fæðingarorlof hafi fækkað auk þess sem þeir hafa verið að taka færri daga í fæðingarorlof eftir árið 2008 samanborið við tölulegar upplýsingar um töku fæðingarorlofs feðra fyrir þann tíma. Fjöldi mæðra virðist hins vegar vera stöðugri milli þessara tímabila sem og fjöldi þeirra daga sem þær hafa tekið í fæðingarorlof. Eru eflaust margs konar ástæður fyrir þessari þróun, meðal annars lægri hámarksgreiðslur úr sjóðnum, lækkun kaupmáttar, óöryggi á vinnumarkaði og auknar skuldir heimilanna svo eitthvað sé nefnt. Engu að síður er mikilvægt að stuðla að því að markmið laganna nái fram að ganga en til þess að svo megi verða er mikilvægt að röskun á tekjum heimilanna verði sem minnst þegar foreldrar þurfa að leggja niður störf vegna tilkomu barns í fjölskylduna sem þarfnast umönnunar þeirra.

Hæstv. forseti. Í frumvarpi þessu er því lagt til að foreldrar í fæðingarorlofi fái að nýju 80% af meðaltali heildarlauna á tilteknu viðmiðunartímabili í fæðingarorlofi eins og gilti áður en grípa þurfti til nauðsynlegra aðhaldsaðgerða, samanber þó ákvæði um hámarksgreiðslur úr Fæðingarorlofssjóði. Samkvæmt gildandi lögum nemur greiðsla foreldra í fæðingarorlofi 80% af meðaltali heildarlauna eða reiknaðs endurgjalds að fjárhæð 200 þús. kr. Ef það er lægra er það um 75% af þeirri fjárhæð. Í frumvarpinu er jafnframt gert ráð fyrir að hámarksgreiðsla samkvæmt lögunum um fæðingar- og foreldraorlof verði 350 þús. kr. í stað 300 þús. kr. Þetta gerði það að verkum að greiðslur til foreldra með 437.500 kr. eða minna í mánaðartekjur að meðaltali verða 80% af meðaltali heildarlauna á tilteknu viðmiðunartímabili. Til samanburðar má geta þess að samkvæmt gildandi lögum fá foreldrar með 387 þús. kr. eða minna í mánaðartekjur að meðaltali á tilteknu viðmiðunartímabili 80% af meðaltali heildarlauna að fjárhæð 200 þús. kr. og 75% af þeirri fjárhæð meðaltals heildarlauna sem er umfram þá fjárhæð. Það er sem sagt verið að samræma þetta við eldra form, setja 80% á heildina í staðinn fyrir að vera með þetta tvískipt, 75% og 80%, og leiðir það auðvitað til hækkunar til þeirra sem eru í orlofi. Nú standa vonir mínar til þess að unnt verði að hækka þá fjárhæð á næstu tveimur árum einnig þannig að hún verði sambærileg þeirri fjárhæð sem miðað var við fyrir árið 2009.

Hins vegar er það skref að bæta réttindi foreldra langveikra og alvarlega fatlaðra barna innan fæðingarorlofskerfisins eflaust mikilvægasta skrefið sem tekið er með frumvarpinu. Í því sambandi er lagt til að hætt verði að líta til þess hvort barn þurfi að dvelja á sjúkrahúsi í beinu framhaldi af fæðingu þegar kemur til álita að lengja fæðingarorlof foreldra vegna alvarlegs sjúkleika eða alvarlegrar fötlunar barns. Í stað þess er gert ráð fyrir að eingöngu verði litið til þess að ástand barnsins krefjist nánari umönnunar foreldranna umfram það sem eðlilegt er við umönnun ungbarna almennt án tillits til þess hvort barn liggi í lengri eða skemmri tíma á sjúkrahúsi. Þannig yrðu heimildir til lengingar á fæðingarorlofi vegna alvarlegs sjúkleika eða alvarlegrar fötlunar barnsins sameinaðar og þá heimilt að lengja fæðingarorlof um allt að sjö mánuði að undangengnu mati sérfræðilæknis. Áfram er miðað við að barn greinist með alvarlegan sjúkdóm eða alvarlega fötlun og er þá ekki átt við tilfallandi veikindi barna, svo sem eyrnabólgu, hlaupabólu eða eitthvað slíkt þó að það geti verið þrálátt.

Síðast en ekki síst er með frumvarpinu lagt til að fæðingarorlof foreldra verði lengt úr níu mánuðum í tólf mánuði í áföngum þannig að lengingin verði komin að fullu til framkvæmda á árinu 2016. Áhersla er lögð á að foreldrar eigi jafna möguleika á að taka fæðingarorlof og er lagt til að sama skipting og verið hefur verði áfram. Er því lagt til að einn mánuður bætist við sjálfstæðan rétt hvors foreldris og jafnframt að einn mánuður bætist við sameiginlegan rétt foreldra. Jafnframt þykir mjög mikilvægt að sjálfstæður réttur foreldra verði ekki framseljanlegur milli foreldra enda talið einn af lykilþáttum þess að lögin um fæðingar- og foreldraorlof nái markmiðum sínum. Í því sambandi verður að líta til reynslu síðustu ára en ljóst er að ytri aðstæður virðast hafa haft meiri áhrif á nýtingu feðra á rétti sínum til fæðingarorlofsins en á nýtingu mæðra. Gert er ráð fyrir að réttur foreldra til greiðslu fæðingarstyrks lengist á sama hátt og fæðingarorlof foreldra á vinnumarkaði.

Hæstv. forseti. Líkt og ég vék að í upphafi er frumvarpi þessu ætlað að hefja endurreisn fæðingarorlofskerfisins þannig að kerfið verði í það minnsta jafnsett því kerfi sem var í gildi fyrir árið 2009. Fjárlagaskrifstofa fjármála- og efnahagsráðuneytisins áætlar að verði frumvarpið lögfest í núverandi mynd verði útgjöld Fæðingarorlofssjóðs árið 2013 rúmlega 8,4 milljarðar kr. og þar af leiðandi innan fjárheimilda í fjárlagafrumvarpinu. Tel ég að með frumvarpinu sé verið að taka mikilvæg og nauðsynleg skref til að tryggja að greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði verði sambærilegar þeim greiðslum sem greiddar voru áður og þá með þeim viðbótum sem ég talaði um, sem er bæði lengingin og bætt réttarstaða foreldra langveikra og alvarlega fatlaðra barna.

Að lokinni þessari umræðu legg ég til að frumvarpinu verði vísað til hv. velferðarnefndar.