141. löggjafarþing — 50. fundur,  11. des. 2012.

makríldeilan.

[13:38]
Horfa

atvinnuvega- og nýsköpunarráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg):

Frú forseti. Út af fyrir sig mundum við ekki gera mikið annað ef við eltumst við að svara öllum þeim ummælum sem að okkur er beint, sérstaklega í skosku og írsku pressunni, frá Noregi og víðar að, en auðvitað er það alvarlegra mál þegar sjávarútvegskommissar Evrópusambandsins er með einhverjar yfirlýsingar af þessu tagi. Það verður þá bara metið hvort það sé tilefni til viðbragða af okkar hálfu.

Við höfum ekki talið það þjóna málstað okkar best að vera með miklar hreystiyfirlýsingar eða munnbrúk í þessa veru heldur leggja áherslu á að koma upplýsingum um okkar afstöðu og rök á framfæri og standa frekar fast í fæturna við samningaborðið. Það höfum við gert og munum gera áfram.

Svo er eitt í viðbót sem er ástæða til að nefna og það er sú óvissa sem er uppi um stofnstærðarmatið og miklar umræður sem nú fara fram um það, samanber til dæmis álit sérfræðinga við norsku hafrannsóknastofnunina. Það auðveldar okkur kannski ekki að ná samstöðu um einhverja niðurfærslu veiðanna að það er veruleg óvissa um stofnstærðarmatið (Forseti hringir.) og vandkvæði því samfara að ákvarða stærð makrílstofnsins nákvæmlega. Ýmsir telja að hann sé sterkari en ráðgjöfin gefur til kynna.