141. löggjafarþing — 50. fundur,  11. des. 2012.

lög um framhaldsskóla.

[14:05]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (S):

Frú forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir svörin sem voru einlæg og heiðarleg. Það voru efnahagslegar forsendur fyrir því að gildistöku laganna var frestað. Það voru efnahagslegar forsendur fyrir því að lykilatriði í framhaldsskólalögunum til að fara gegn brottfallinu, efla iðn- og starfsnám og stytta námstíma til stúdentsprófs var frestað. Í staðinn fyrir það forgangsraðaði ríkisstjórnin í þágu annars, ég er ekki að tala um hæstv. menntamálaráðherra heldur fær hún ekki stuðning frá ríkisstjórninni. Hún fær ekki stuðning frá forsætisráðherra eða fjármálaráðherra á hverjum tíma til að vinna gegn þessum erfiðu þáttum innan menntakerfisins, þ.e. brottfallinu, og með auknu vægi iðn- og starfsnáms og styttingu námstíma til stúdentsprófs. Í staðinn er forgangsraðað í þau verkefni sem við bentum á í umræðunni um fjárlögin. Spurningin er um það hverju sinni hvernig við ætlum að forgangsraða.

Ég hefði kosið að ríkisstjórn Íslands hefði einmitt forgangsraðað með menntamálaráðherra og stutt hæstv. menntamálaráðherra í því að fá henni þau tæki sem hún þarf til að efla iðn- og starfsnám, koma í veg fyrir brottfall og stytta námstíma (Forseti hringir.) til stúdentsprófs. Nei, enn og aftur undirstrikar þessi umræða það að ríkisstjórnin forgangsraðar einmitt á vondum stöðum, stöðum sem ég get ekki stutt hana í.