141. löggjafarþing — 50. fundur,  11. des. 2012.

vernd og orkunýting landsvæða.

89. mál
[14:49]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ágæta ræðu, bara mjög góða ræðu því að hv. þingmaður flutti hana af mikilli sannfæringu og ekkert út á það að setja. Ég vil í upphafi samt gera eina athugasemd við a.m.k. eitt atriði sem ég er mjög ósammála hv. þingmanni um í ræðu hans og það varðar Jökulsárnar í Skagafirði. Ég hef búið alla mína ævi við ósa þessara áa og verið þarna alla mína hunds- og kattartíð. Og það er nákvæmlega ekkert sem kemur í veg fyrir að ekki eigi að nýta þessi fallvötn. Í fyrsta lagi, ef við horfum til dæmis á Skatastaðavirkjun, er ekki verið að tala um að þar fari undir lón, ja, það fer varla stingandi strá heldur urð og grjót, en það er nú ekki það sem ég ætla að spyrja hv. þingmann út í.

Ég er sammála hv. þingmanni að það er áhyggjuefni hvernig aðferðafræðin var hjá faghópunum þegar við vorum upplýst um að það vantaði mat á samfélagslegum áhrifum og menn voru að breyta viðmiðunum í faghópi II eða III, ég man ekki alveg hvor hópurinn það var, jafnóðum í rauninni.

Þessi vinna er ekki hafin yfir gagnrýni í sjálfu sér, alls ekki, og alveg óþarfi að láta þannig. Það er hins vegar miður að mínu viti að hafa farið í þennan pólitíska leik með rammaáætlun, að fikta í þessu eftir að hún lá fyrir. Ég hefði haldið að í von um að ná sátt væri eina leiðin að láta þessa vinnu standa þó svo að sá er hér stendur væri mjög óánægður með margt, eins og til dæmis það að Jökulsárnar í Skagafirði skyldu vera í biðflokki, ég taldi þær eiga að vera í nýtingarflokki.

Það sem stendur kannski upp úr hjá hv. þingmanni eru varnaðarorð hans við of mikilli nýtingu á jarðhita. Ef ég man rétt eru um 1.000 megavött í nýtingarflokki í jarðhita en 66 megavött í nýtingarflokki af vatnsafli. Þá spyr maður: Er þetta ekki röng aðferð að setja of mikla áherslu á jarðhitann sem við vitum í rauninni minna um og höfum minni reynslu af, í staðinn fyrir vatnsaflið sem við þekkjum (Forseti hringir.) mjög vel og hefur áhrif sem við þekkjum?