141. löggjafarþing — 50. fundur,  11. des. 2012.

vernd og orkunýting landsvæða.

89. mál
[15:49]
Horfa

Frsm. meiri hluta um.- og samgn. (Mörður Árnason) (Sf) (andsvar):

Forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ræðu hans sem var um margt athyglisverð. Ég tel þó að ákveðnir veikleikar séu í afstöðu hans til málsins því annars vegar leggur hann áherslu á fagleg sjónarmið en telur hins vegar að pólitík hafi ráðið því að nú sé rammaáætlunin nánast einskis virði. Hún sé bara þessarar ríkisstjórnar sem sitji fram í apríl og svo taki næsta ríkisstjórn við og búi til allt öðruvísi rammaáætlun og noti þá fordæmi þessarar ríkisstjórnar.

Fordæmið, forseti, er að ákvarðanir eru teknar að lokum samkvæmt ábendingum sem komu inn í umsagnarferli. Hv. þingmaður er væntanlega ekki á móti því að það sé haft umsagnarferli. Ef það er haft umsagnarferli hlýtur það að þýða eitthvað, það hlýtur að hafa einhverja merkingu að sex virkjanir, þrjár virkjanir á tveimur svæðum, voru settar í biðflokk. Ef það er fordæmið sem gefið er, að fresta ákvörðunum með því að setja þær í biðflokk, hef ég engu að kvíða um rammaáætlun næstu ríkisstjórnar eða þarnæstu eða hvernig það verður.

Ef menn halda sig við fagleg sjónarmið verða menn að fara alla leið í þessu. Hv. þingmaður segir í ræðunni og í fyrirvara sínum að hann telji að það sem heitir röðun verkefnisstjórnar og sérfræðingahóps í orkuflokk, biðflokk og verndarflokk hafi átt að standa, ekki satt? En síðan kemur hv. þingmaður og segir að hann hafi, vegna þess að hann hefur lesið gögn og hann hefur farið um svæðið og talað við menn, að þá telji hann í fyrsta lagi að það séu of margir kostir á Reykjanesskaganum sem séu í orkunýtingarflokki. Þá eru hin faglegu sjónarmið einhvers staðar bara í burtu. Í öðru lagi að byrja eigi á Hólmsárvirkjun vegna þess að gögn sem enginn hefur kannað nema hv. þingmaður og fleiri þingmenn, þ.e. þau hafa ekki verið metin á þeim stað þar sem á að meta þau, sýni að þetta sé allt í lagi. Ég veit ekkert um það, ég vil að fagmenn meti það. Og í þriðja lagi að þá séu Þjórsárvirkjanirnar í góðu lagi nema Urriðafoss.

Hv. þingmaður hefur tekið afstöðu gegn hinum faglegu sjónarmiðum í þessu, ef þau eru miðuð við afstöðu (Forseti hringir.) sérfræðingahópsins sem er sá sem raðaði þessu. (Forseti hringir.) Það er ekki í samræmi við yfirlýsingar hans að öðru leyti. Þetta er veikleiki.