141. löggjafarþing — 50. fundur,  11. des. 2012.

vernd og orkunýting landsvæða.

89. mál
[16:00]
Horfa

Sigurður Ingi Jóhannsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir svarið. Ég vil halda aðeins áfram með þetta mál og velta því fyrir mér sem kom fram í ræðu hv. þingmanns, að bent var á það strax að gögn varðandi Hólmsárvirkjun týndust. Allan tímann sem ráðherrarnir og umhverfis- og samgöngunefnd hafði málið til umfjöllunar lá fyrir að þessi gögn voru til. Því vil ég spyrja hv. þingmann hvort hann telji þessa aðila hafa frumkvæðisskyldu til að rannsaka gögnin. Þetta voru mannleg mistök og þau komu fyrir. Ég vil spyrja hvort ekki sé ábótavant þeirri frumkvæðisskyldu að rannsaka gögn til þess að leggja málið eins faglega fyrir og hægt er.

Ég er sammála hv. þingmanni varðandi það að þingið geti breytt tillögum fram á síðustu stundu í þessu máli eins og öllum öðrum. Það gætu komið fram breytingartillögur, til að mynda um að setja Hólmsárvirkjun inn í þetta plagg. Ég spyr hvort þingmaðurinn mundi styðja slíka tillögu og að lokum hvort hann styðji þingsályktunartillöguna eins og hún liggur fyrir núna.