141. löggjafarþing — 50. fundur,  11. des. 2012.

vernd og orkunýting landsvæða.

89. mál
[21:05]
Horfa

Magnús Orri Schram (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hér voru á ferð tvær spurningar og ég ætla að leitast við að svara þeim báðum. Vonandi dugar fyrra andsvar til þess.

Í fyrsta lagi vildi ég leggja á það áherslu í ræðu minni að niðurstöður faghópanna fóru í lögformlegt tólf vikna ferli. Ég veit ekki betur en allir stjórnmálaflokkar hafi gengið frá þeim lagaramma sem það tólf vikna umsagnarferli var í. Við vorum sammála um það ferli hér á háu Alþingi veturinn 2011. Ég vil því leggja á það áherslu að byggt á grundvelli þeirra upplýsinga sem þar bárust er það að mínu viti meiri sátt að taka hlutina úr orkunýtingu yfir í bið og segja: Við skulum sækja betri upplýsingar um stöðu þessara kosta, hvort þeir eigi heima í orkunýtingu eða hvort við eigum að færa þá yfir í vernd. Það er miklu betri sátt og þess vegna er ég fylgjandi þeirri ályktun sem liggur til grundvallar þessari umræðu.

Hitt er: Já, náttúran á að njóta vafans. Þá spyr þingmaðurinn: Af hverju er þingmaðurinn fylgjandi jarðvarma frekar en vatnsafli? Svo svarar hann því sjálfur í ræðu sinni að í raun og veru vitum við voðalega lítið um jarðvarmann og hvaða mengunaráhrif hann hefur. Sýnir það ekki einmitt að ég tel að við eigum að láta náttúruna njóta vafans? Er það ekki einmitt málið? Eigum við ekki að láta hlutina fara í lögbundið ferli, kalla eftir umsögnum aðila og segja: Á grundvelli þeirra upplýsinga skulum við taka ákvörðun. (Gripið fram í: … í nýtingarflokki hjá þér …) Ef menn komast að því að hlutirnir eigi að vera í nýtingarflokki skulum við hafa þá þannig, en það er þá byggt á því ferli sem allt málið er í, þeim átta verkþáttum sem ítarlega er gengið frá í þessu nefndaráliti. Einn þeirra verkþátta var: Sækjum betri upplýsingar meðal umsagnaraðila og þeir kalla til baka og á grundvelli þess tökum við vatnsaflskostina. Já, vissulega gerum við það, en hefðu komið upplýsingar er snerta jarðvarmann hefðum við gert það sama. Það sýnir bara að þetta ferli er rétt. Það er að virka. Við erum að stíga skref í sátt við þjóðina og sátt við þær upplýsingar sem fram hafa komið. (Gripið fram í.)