141. löggjafarþing — 50. fundur,  11. des. 2012.

vernd og orkunýting landsvæða.

89. mál
[22:19]
Horfa

Einar K. Guðfinnsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er stundum eins og menn gleymi því að þessi þingsályktunartillaga gengur út frá tveimur meginforsendum, annars vegar vernd og hins vegar orkunýtingu. Annars vegar náttúruverndarsjónarmiðum og hins vegar nýtingarsjónarmiðum og þá hljóta menn í því sambandi, samkvæmt laganna hljóðan, að hafa hugmyndir um hagkvæmni þeirra virkjana í forgrunni þegar horft er á efnahagshliðina og á nýtingarhliðina.

Nú blasir við hvað varðar vatnsaflsvirkjanirnar að búið er að ýta til hliðar öllum hagkvæmustu kostunum. Það er með öðrum orðum búið að leggja til hliðar þær skírskotanir í þau ákvæði laganna sem lúta að hagkvæmnissjónarmiðunum. Síðan kemur hitt til viðbótar að áherslan er öll á háhitasvæði en svo er skrifaður texti inn í nefndaráliti meiri hluta umhverfis- og samgöngunefndar sem í raun og veru ýtir líka möguleikunum á virkjunum á háhitasvæðum á næstu árum út af borðinu. Í rauninni er það þegar grannt er skoðað og betur að gáð, augljóslega tilraun til að reyna að stöðva virkjunarframkvæmdir, (Forseti hringir.) stöðva nýtingarþáttinn í þessari þingsályktunartillögu.