141. löggjafarþing — 50. fundur,  11. des. 2012.

vernd og orkunýting landsvæða.

89. mál
[22:52]
Horfa

Unnur Brá Konráðsdóttir (S):

Hæstv. forseti. Við ræðum tillögu til þingsályktunar um vernd og orkunýtingu landsvæða. Mig langar að koma að því í upphafi máls míns, svo það fari ekkert á milli mála, að ég sat í verkefnisstjórn um rammaáætlun. Þeir sem hlýða á mega þá kannski hafa það í huga þegar ég fer yfir tillöguna.

Frú forseti. Þegar við ræðum þetta mál og förum yfir þá niðurstöðu sem liggur fyrir þinginu er rétt að líta til þess hver tilurð málsins var í raun. Það hefur verið í vinnslu mjög lengi. Í ágúst 2007 var skipuð verkefnisstjórn í 2. áfanga rammaáætlunar, en þá sátu í ríkisstjórn Sjálfstæðisflokkur og Samfylking. Sú ríkisstjórn hafði einsett sér að reyna að horfa á þessi mál með aðeins öðrum gleraugum. Í skipunarbréfi verkefnisstjórnar rammaáætlunar kemur fram að ríkisstjórnin hafi einsett sér að skapa sátt um vernd og nýtingu náttúrusvæða og leggi því mikla áherslu á að ljúka sem fyrst rannsóknum á verndargildi þeirra og gildi annarrar nýtingar með sérstaka áherslu á háhitasvæði landsins og flokkun þeirra með tilliti til verndar og orkunýtingar.

Í erindisbréfinu segir um útkomuna úr þessu öllu saman, með leyfi forseta:

„Iðnaðarráðherra mun á grundvelli niðurstaðna skýrslu verkefnisstjórnar og að höfðu samráði við umhverfisráðherra og verkefnisstjórnina leggja fyrir Alþingi fyrir lok ársins 2009 tillögu að rammaáætlun um verndun og nýtingu náttúrusvæða með áherslu á vatnsafls- og jarðvarmasvæði.“

Nú vitum við að þessar dagsetningar breyttust aðeins, en ég vil fá að vita hvenær ákvörðun var tekin um að breyta þeirri áherslu sem birtist hér í erindisbréfi verkefnisstjórnar á að ráðherra leggi tillögu fyrir Alþingi á grundvelli niðurstaðna skýrslu verkefnisstjórnar. Ég tel að í þessu hafi falist ákveðin binding af hálfu ráðherra í ljósi forsögu málsins; að ráðherra ætlaði sér að fylgja hinum faglegu niðurstöðum verkefnisstjórnar.

Þess vegna skýtur skökku við, frú forseti, að við ræðum hér um tillögu sem að nokkru leyti, og að talsverðu leyti að mati sumra, fer gegn og víkur verulega frá niðurstöðu verkefnisstjórnar um rammaáætlun. Eins og fjölmargir þingmenn hafa komið inn á vekur það ákveðna furðu og hryggir mann. Ég hélt að menn ætluðu sér, sama úr hvaða flokki þeir kæmu, að reyna að ná ákveðinni sátt þannig að við gætum hafið okkur upp úr hinum pólitísku skotgröfum við að meta hvar ætti að vernda og hvar ætti að nýta. Það var heildarhugsunin að baki öllu þessu verkefni, að koma okkur upp úr þeim hjólförum. En hér erum við mörgum árum seinna algjörlega ofan í sömu hjólförum vegna þess að ferlinu var ekki fylgt allt til enda.

Af þeim sökum höfum við í Sjálfstæðisflokknum lagt fram okkar eigin tillögur að breytingum að lögum um þessi mál. Þær fela í sér að verkefnisstjórn verði falið að taka þetta verkefni til sín og flokka þessa kosti. Það verði ekki verkefni ráðherra heldur hinnar faglegu verkefnisstjórnar. Við teljum að það mundi breyta málinu.

Frú forseti. Ég ætla að nota þennan stutta tíma sem ég hef í þessari ræðu til að fjalla aðeins um þá kosti þar sem helst er vikið frá niðurstöðum. Ég ætla að afmarka mig við niðurstöður þess hóps sem fenginn var til að flokka kostina. Það var formaður verkefnisstjórnar, Svanfríður Jónasdóttir, ásamt formönnum faghópa auk starfsmanna ráðuneyta umhverfis- og iðnaðarmála, sem bjó til þessa flokkun. Ráðherrarnir tóku síðan þá niðurstöðu og færðu til nokkra virkjunarkosti. Eins og frægt er orðið eru það virkjanirnar í Þjórsá annars vegar og hins vegar Skrokköldu- og Hágönguvirkjanir.

Ef við skoðum rökstuðning meiri hlutans fyrir því að færa Skrokköldu- og Hágönguvirkjanir úr nýtingarflokki yfir í biðflokk er vísað til þess að fara þurfi fram nýtt mat út frá einhverjum viðmiðum frá IUCN sem kallast „buffer zone“.

Í tillögunni sjálfri segir, með leyfi forseta:

„Við undirbúning stofnunar Vatnajökulsþjóðgarðs var stuðst við alþjóðleg viðmið IUCN þar sem miðað er við svokallað „buffer zone“ á svæðum er liggja að friðlýstum svæðum.

Þaðan fá þeir sem fluttu þessa tillögu hugmyndina um þetta „buffer zone“ eða áhrifasvæði. Ég vil meina að hér sé átt við að meta þurfi svæði. Mér hefur heyrst, í þeim andsvörum sem ég hef átt við hv. þingmenn meiri hlutans, að hér sé átt við að skoða þurfi svæðin betur. Það þurfi að horfa til þess að Vatnajökulsþjóðgarður sé eitthvert ákveðið svæði.

Nú er það svo, frú forseti, að í faghópum verkefnisstjórnar voru skoðuð svæði. Ef við skoðum skýrslu verkefnisstjórnarinnar og hvernig faghópur I fór til dæmis í málin má sjá á blaðsíðu 48 í skýrslunni að þar er talað um afmörkun svæða. Gerð er grein fyrir aðferðafræðinni sem faghópur I studdist við og hér er meira að segja þetta fína kort sem sýnir svæðin. Ég get ekki séð betur en þarna sé eitt svæði þar sem eru virkjanirnar nálægt þjóðgarðinum.

Ég tel því að sá rökstuðningur að þessi sjónarmið hafi aldrei verið skoðuð eða metin sé einfaldlega rangur. Ég tel að verkefnisstjórn hafi unnið að málinu á fullnægjandi hátt og hér sé eingöngu verið að reyna að finna upp einhver nýyrði til að geta bent á að þetta megi nú skoða allt saman betur enn einu sinni. Ég er ekki sammála því. Ég átta mig á að stjórnarþingmenn eru ósammála mér, en ég tel að hér sé einfaldlega verið að reyna að draga málið á langinn, draga á langinn að taka ákvörðun um þessa kosti og ég skil ekki hvers vegna. Ég hef óskað eftir betri skýringum á þessu af hálfu þeirra sem flytja nefndarálit meiri hlutans og óska enn og aftur eftir því að þau sem standa að þessu áliti og eiga eftir að taka til máls í umræðunni fari yfir þetta og beri þessa nálgun saman við þá aðferðafræði sem verkefnisstjórnin miðaði við.

„Ósnortin víðerni“ er hugtak sem kemur mjög víða fyrir í skýrslu verkefnisstjórnar. Ég veit ekki betur en að víðerni sé stórt svæði og í því samhengi sé horft á meira en akkúrat einn punkt þar sem virkjun verður staðsett. Þannig skil ég þetta, hef skilið þetta og sé ekki að hægt sé að skilja það á nokkurn annan hátt.

Frú forseti. Þá komum við að virkjunum í Þjórsá sem eru nú, verði þessi tillaga að veruleika, settar í biðflokk. Ég ætla að gerast svo djörf að segja, frú forseti, að þessir kostir séu með þeim mest rannsökuðu kostum sem til eru á Íslandi. Ég tel að Alþingi beri einfaldlega að taka ákvörðun um hvort þessar virkjanir eigi að fara í nýtingarflokk eða verndarflokk.

Ef við förum yfir þau gögn sem liggja til grundvallar ákvörðun um virkjanir í Þjórsá og aðrar virkjanir á þessum lista, sem sumar hverjar falla í verndarflokk, aðrar í nýtingarflokk, hljóti menn að sjá að hér liggur fyrir ógrynni af gögnum. Því er erfitt að sannfæra sjálfan sig um að rökstuðningur sem byggir á því að frekari gögn vanti sé réttmætur. Ég er algjörlega ósammála því. Ég tel augljóst að hér sé um einhvers konar pólitískan samning að ræða, kannski þögult samkomulag eins og einhver minntist hér á. Það stendur nú samt hér svart á hvítu að um sé að ræða samning milli stjórnarflokkanna sem eigi að gera það að verkum að ríkisstjórnin lifi af þetta kjörtímabil.

Frú forseti. Þegar við horfum til upphafs málsins og tilgangsins með því, að reyna að fá fram tillögu sem allir geta sætt sig við — og auðvitað er það þannig að ef allir hefðu skrifað tillöguna sjálfir hefði hún litið öðruvísi út — en þegar ráðist er í svona stórt verkefni og reynt að sætta ólík sjónarmið og gera það á faglegum forsendum verður það að ganga allt til enda og þá er ekkert pláss fyrir pólitísk fingraför af þessu tagi. Það er einfaldlega ekki pláss fyrir slíkt. Hér er að mínu mati verið að eyðileggja alla þessa vinnu, alla þá hugmyndafræði sem liggur að baki henni og alla þá fagmennsku sem okkar helstu vísindamenn og fræðimenn á fjölmörgum sviðum sýndu, sérstaklega í faghópunum sem unnu undir verkefnisstjórninni. Verkefnisstjórnin stýrði verkefninu og fékk til sín gögn og skýrslur frá faghópunum fjórum sem skipaðir voru fjölmörgum einstaklingum sem hver og einn var sérfræðingur á sínu sviði.

Mig langar, af því ég var að tala um Þjórsá, að nefna að hlunnindi, þar á meðal fiskveiði og fiskgengd, voru metin sérstaklega í faghópi II. Hægt er að nálgast umfjöllun um það á blaðsíðu 96 í skýrslu verkefnisstjórnar hafi menn áhuga á að skoða hvaða aðferðafræði var notuð við mat verkefnisstjórnar. Ef maður skoðar þau gögn sem hægt er að nálgast á alnetinu um veiðihlunnindi og gengd fiskstofna í Þjórsá sjáum við að um er að ræða, eins og ég sagði áðan, mest rannsökuðu kosti sem við höfum í höndunum í þessu máli. Ég vísa þeirri fullyrðingu um að það eigi að færa þessa kosti úr nýtingarflokki yfir í biðflokk vegna þess að það vanti gögn, einfaldlega til baka og segi: Þetta er ekki fullnægjandi rökstuðningur. Það er augljóst að hér er um pólitískan leik að ræða.

Frú forseti. Nefndarálit meiri hlutans er efni í stóra og langa ræðu, sérstaklega þær ábendingar sem birtast okkur í kafla 13. Þar er fjallað um áherslur næstu verkefnisstjórnar og ábendingar til ráðherra. Ég sit ekki sjálf í nefndinni og til að átta mig betur á þessum kafla hef ég fengið ágætisútskýringar og fyllingu í textann meðal annars frá hv. þm. Álfheiði Ingadóttur. En ef við skoðum til dæmis þá ábendingu sem meiri hlutinn beinir til ráðherra og Alþingis alls um að meta hvort ástæða sé til að rammaáætlun taki einnig til smærri virkjunarkosta, má skilja hana sem svo að undir þetta mat heyri allir kostir. Rökin að baki þessu, eins og hv. þm. Álfheiður Ingadóttir kom fram með áðan, eru þau að stærð svæðisins eða virkjunarkosts sé ekki endilega alltaf ákvarðandi varðandi áhrifin. Ég skil þá hugsun sem hér er að baki, en hversu flókið og viðamikið á þetta mat að vera? Nú höfum við Íslendingar reynt að nýta það sem landið gefur okkur og bæjarlækurinn hefur verið virkjaður hér og þar í gegnum tíðina eftir því sem tækninni hefur fleygt fram, til að skapa aðeins betri aðstæður fyrir búið á hverjum stað. Erum við að tala um að það þurfi að meta hvern einasta bæjarlæk sem hægt er að virkja og hann þurfi að fara í gegnum allt þetta ferli hér? Er átt við það?

Mér finnst jafnframt mjög athyglivert það sem kemur hér fram, en meiri hlutinn beinir því til ráðherra og Alþingis að athuga hvort ekki sé æskilegast að í lögunum væri mælt fyrir um endurmat ónýttra kosta í orkunýtingarflokki að tilteknum tíma liðnum. Ef meiri hlutinn leggur þetta til, hvers vegna er ekki líka lagt til að þetta eigi jafnframt við um verndarflokkinn? Það kemur fram á öðrum stað í textanum að verkefnisstjórnin eigi að skoða þetta eitthvað, en það kemur ekki fram að sérstaklega skuli mælt fyrir um það í lögunum að slíkt endurmat eigi að fara fram. Ég skil ekki af hverju eitthvað annað á að gilda um þá kosti sem eru í vernd en þá sem eru í nýtingu hvað endurmat varðar. Ég næ ekki alveg utan um þá hugsun sem þarna er að baki. Eiga hlutirnir bara að ganga í aðra áttina?

Heilt á litið eru þessar áherslur og ábendingar til næstu verkefnisstjórnar og ráðherra mjög ítarlegar. Staðan á þeim virkjunum sem lenda í biðflokki verður í raun þannig að mjög erfitt verður að afla þeirra gagna sem upp á vantar til að reyna að fá þá kosti metna upp í nýtingarflokk vegna þess að mjög erfitt verður að fá leyfi til að gera þær rannsóknir sem þarf. Ég tel að verði farið eftir öllum þessum ábendingum, en maður hlýtur að ætla að menn ætli sér að leggja fram frumvarp til breytingar á lögunum í kjölfar þessara athugasemda, verður umhverfið þá ekki orðið svo flókið að ekki verður hægt að komast með virkjunarkost sem lent hefur í biðflokki upp í nýtingarflokk?

Síðan langar mig líka að spyrja hv. þingmenn sem standa að meirihlutaálitinu hvort þeir hafi eitthvað velt fyrir sér kostnaðinum við þær rannsóknir og þá áætlanagerð sem hér er verið að leggja til. Hér er í aðra röndina gagnrýnt að orkufyrirtækin komi að því að bera ákveðinn kostnað í kringum þessar framkvæmdir. Er þá vilji meiri hluta nefndarinnar að allar þær rannsóknir sem fram þurfa að fara á þessum kostum verði á kostnað ríkisins? Er það svo? Þegar kröfurnar eru orðnar svona miklar og rannsóknarþörfin svona þung og líkurnar á því að komast með virkjunarkost úr biðflokki upp í nýtingarflokk eru orðnar svona litlar, á þá ríkið að framkvæma og kosta allar rannsóknir sem til þarf? Erum við á leiðina í þá átt, ef við viljum sporna við því að orkufyrirtækin komi að fjármögnun?

Mér finnst þetta vera spurning sem við eigum eftir að velta fyrir okkur og ræða. Þeir aðilar sem ég hef heyrt í og eiga þá kosti sem eru í biðflokki í þessari tillögu hafa þungar áhyggjur af því að umhverfið sé orðið svo flókið að það að kostur lendi í biðflokki þýði í rauninni að hann lendi í vernd. Kröfurnar séu orðnar það miklar. Það sé erfitt eða nánast ómögulegt að fá heimildir til rannsókna og síðan er með þessum ábendingum enn verið að bæta í.

Það er mjög margt áhugavert og gott í þessum punktum enda náði vinna verkefnisstjórnar bara ákveðið langt og takmarkaðist af þeim „rísorsum“, afsakið, frú forseti, sem verkefnisstjórnin hafði, þ.e. hvað varðar fjármagn, tíma og möguleika á að ná á klára ákveðnar rannsóknir á tilteknum tíma. Verkefnisstjórnin komst bara ákveðið langt í þeim áfanga og næsti áfangi verður vonandi enn öflugri og við fáum enn meiri upplýsingum. En spurningin er alltaf sú hversu mikið þarf að koma til áður en kostur getur komið til mats og hversu miklar og djúpar upplýsingar þurfa að liggja fyrir til að öllum skilyrðum sé fullnægt.

Frú forseti. Það væri efni í langa ræðu að fjalla aðeins um Hagavatnsvirkjun. Ég hef sjálf mikinn áhuga á landgræðslu og tel þennan virkjunarkost vera afskaplega áhugaverðan af því að hann er svo allt öðruvísi en allir hinir. Þar eru allt önnur sjónarmið að baki. Við sem höfum verið á Suðurlandinu þekkjum þann mikla uppblástur sem verður í ákveðnum vindáttum ofan af fjöllum og höfum auðvitað áhuga á öllum þeim leiðum sem mögulegar eru til að stöðva þá þróun. Landið okkar er að fjúka burt og ýmsar rannsóknir hafa sýnt að þessi virkjun gæti spornað gegn þeim uppblæstri. Þá er spurning hvort þessi kostur, af því að hann er svo einstakur og sérstakur, passi inn í þá mælikvarða sem verkefnisstjórnin bjó til til að meta almennt þá virkjunarkosti sem liggja fyrir.