141. löggjafarþing — 50. fundur,  12. des. 2012.

vernd og orkunýting landsvæða.

89. mál
[00:28]
Horfa

Frsm. 2. minni hluta um.- og samgn. (Birgir Ármannsson) (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Það virðist vera sem ríkisstjórnin velji jafnan þann kost sem horfir til mests ófriðar um þau mál sem hún fjallar um. Þannig er með þetta mál og þannig er með fleiri mál sem komið hafa fyrir þingið.

Telur hv. þingmaður að skýringin á því geti verið sú að ríkisstjórnin sé fyrst og fremst að reyna að höfða til tiltekins hóps stuðningsmanna sinna í þessu máli? Gera þeim til geðs með tillöguflutningi sínum frekar en að reyna að mynda þá breiðu samstöðu sem raunverulega var stefnt að í upphafi. Maður hefur á tilfinningunni að breytingarnar sem urðu á þingsályktunartillögunni frá þeim drögum sem send voru út til umsagnar á síðasta ári og til þess sem hér birtist í þinginu hafi fyrst og fremst verið til þess fallið að friða ákveðna hópa innan stjórnarflokkanna eða sem standa nálægt stjórnarflokkunum.