141. löggjafarþing — 50. fundur,  12. des. 2012.

vernd og orkunýting landsvæða.

89. mál
[01:30]
Horfa

Birkir Jón Jónsson (F) (um fundarstjórn):

Herra forseti. Mér sýnist að fundarstjórn forseta sé að verða ansi athyglisverð. Ég gat ekki betur skilið hæstv. forseta öðruvísi en svo að hann tæki ekki undir beiðni þingmanna sem hafa óskað eftir því að ráðherrar viðkomandi málaflokka verði viðstaddir umræðuna. Er það virkilega rétt skilið að hæstv. forseti ætli ekki að gera hæstv. ráðherrum viðvart um að þingmenn óski eftir nærveru þeirra?

Umræðum hefur oft verið frestað í gegnum tíðina á meðan beðið er eftir því að ráðherrar verði viðstaddir umræðuna. Ef hæstv. forseti, sem er þingforseti allra þingmanna, ætlar ekki að verða við þeirri sjálfsögðu ósk að hæstv. ráðherrum verði gert viðvart um að nærveru þeirra sé óskað er hæstv. forseti að brjóta blað í sögu þingsins. Það er bara þannig.