141. löggjafarþing — 50. fundur,  12. des. 2012.

vernd og orkunýting landsvæða.

89. mál
[02:03]
Horfa

Árni Johnsen (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er rétt. Þessi aðför að sjávarútvegi er aðför að hundruðum fjölskyldna sem eru með smábátaútgerð, skuldsetta en vinnugefandi, þetta er aðför vegna þess að inn komu einhverjir sjálfskipaðir sérfræðingar, umsjónarmenn sem vantar reynsluna en eru að finna upp hjólið í nefndum þingsins í dag.

Ferðaþjónustan er gott dæmi, það er ekkert hugsað til enda. Iðnaðarmenn fara í þúsundatali úr landinu með reynslu og þekkingu sem skiptir miklu máli fyrir framtíð Íslands. Við eigum ekki að vera að ala þetta fólk fyrir Noreg, Norðmenn geta séð um sig sjálfir. Hjúkrunarfræðingar — það er sama hvar borið er niður. Einsýnin er svo yfirgengileg og þvergirðingshátturinn, hann getur verið skiljanlegur hjá einstaklingum sem eru sérstakar persónur en ekki hjá hæstv. ríkisstjórn.

Ég tók fyrsta viðtal við perluna Gísla á Uppsölum, einhvern mesta framsóknarmann Íslandssögunnar, (Gripið fram í: Rétt.) fimm síðna viðtal í Morgunblaðinu. Eftir það fór hann að þekkjast meðal þjóðarinnar og kollegi minn Ómar Ragnarsson gerði síðan magnaðan þátt um hann fyrir sjónvarpið. Þegar ég var hjá Gísla gengum við saman 200 metra leið að ná í vatn í lækinn. Ég sá að það var slanga alla leið sem var sundur á einum stað. Ég spurði Gísla: Af hverju notarðu ekki slönguna? Það er ekki hægt, sagði hann. Ég skal gera við slönguna, sagði ég. Nei, það er ekki hægt, Sigurður bróðir átti slönguna. Hann var fallinn frá fyrir 20 árum. En sérviska Gísla (Forseti hringir.) var slík að hann vildi ekki nota slönguna sem annar átti.

Við eigum landið sameiginlega og við eigum að hafna þessari forsjá ríkisstjórnarinnar.