141. löggjafarþing — 50. fundur,  12. des. 2012.

vernd og orkunýting landsvæða.

89. mál
[02:08]
Horfa

Árni Johnsen (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Við verðum og okkur er skylt að nota aflið í fólki landsins, aflið í landinu sjálfu, afl Íslendinga í eðli og þori fólksins okkar sem hefur lifað af misjafna tíð. Að nota aflið í auði landsins. Það er það bensín sem við höfum inn í framtíðina og þurfum að fara vel með og vanda það, en ekki með þvergirðingshætti eða valdbeitingu heldur með sátt.

Það er svo að einu kostirnir sem maður hefur í raun og veru eru þeir sem þekkja mann og þá eru væntanlega ókostirnir þeir sem þekkja mann ekki. Það var lögð höfuðáhersla á að nýta reynslu þeirra sem þekktu landið best, þekktu alla hina fjölbreyttu þætti sem þarf að véla um við gerð slíkrar tillögu sem við fjöllum hér um. Reynt var að gera það markvisst og skipulega og það tókst. Það var treyst á þá sem þekktu til með reynslu, skilningi og góðum vilja. Síðan lendir það í rússíbana stjórnarflokkanna þar sem geðþóttaákvarðanir réðu ríkjum og bögglauppboð sem er ekki nokkur lifandi leið að skilja í. Í einhverjum voru hótanir einhverra þingmanna, aðrir voru tómir pakkar og mikið af þeim þannig að menn flutu eins og korktappar í meðferð málsins og afraksturinn er sá sem við búum við: Aðför að íslensku samfélagi.