141. löggjafarþing — 51. fundur,  12. des. 2012.

vernd og orkunýting landsvæða.

89. mál
[16:20]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (S) (andsvar):

Herra forseti. Ég náði ekki að fara lengra í ræðu minni en kem þá bara inn á það í næstu ræðu minni. Það atriði að aldrei var haft neitt samráð við stjórnarandstöðuna eftir að málið var komið inn á borð ríkisstjórnarinnar lýsir því hversu pólitískt málið er orðið. Í öllu þessu 13 ára ferli var passað upp á að hafa ekki bara alla fagaðila heldur líka alla stjórnmálaflokka inni í ferlinu. Það undirstrikar hversu pólitískt málið er orðið og ég spyr: Þegar menn leyfa sér að koma hingað upp, veifa höndum og segja að málið sé enn í einhverjum sáttafarvegi og engin pólitík í spilinu, hvern er verið að plata með slíku orðalagi?

Eins og ég sagði áðan treysti ég enn það mikið einstaklingum og fólki og er alltaf með ákveðna von í brjósti. Þetta mál er ekki enn þá tímasetningarmál. Það er ekki mál sem við þurfum að klára fyrir áramót. Þess vegna tel ég að það væri farsælast núna að gera hlé á umræðunni. Að forustumenn flokkanna kæmu sér saman um það hvernig málinu yrði haldið áfram. Ég segi fyrir mína parta að ég styð heils hugar að málinu verði vísað til verkefnisstjórnarinnar, eins og tillaga okkar sjálfstæðismanna lýtur að, þannig að við náum að aftengja skoðanir 63 þingmanna til hvers og eins orku- og virkjunarkosts. Ég held að enn sé hægt að ná því. Ég heyri að því er hvíslað hér að ég sé bjartsýn á þessa stjórn. Ég ætla bara að binda ákveðna von við að heilbrigt fólk með heilbrigða hugsun innan þingsins í stjórn sem og stjórnarandstöðu nái að setja málið í þann farveg að við, þ.e. stjórnarflokkarnir sem og stjórnarandstöðuflokkarnir, verðum bundin við plagg sem dugi lengra en bara fram til 27. apríl. Ef það verður samþykkt (Forseti hringir.) erum við að tala um eitthvað áróðursplagg fram til 27. apríl.