141. löggjafarþing — 51. fundur,  12. des. 2012.

vernd og orkunýting landsvæða.

89. mál
[17:11]
Horfa

Einar K. Guðfinnsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég er alveg sammála hv. þingmanni um þetta. Við fórum mjög vel yfir þetta í nefndunum og við fengum líka í hendurnar plögg, m.a. úr iðnaðarráðuneytinu, sem rökstuddu enn þá betur að allar efnislegar forsendur voru fyrir því að færa þessa virkjun úr biðflokki í nýtingarflokk. Og sérstaklega vegna þess að búin var til þessi stoppistöð fyrir málið, eins og ég hef orðað það, þar sem hæstv. ráðherrar höfðu möguleika á því að taka tillit til umsagna og ábendinga sem fram kæmu, m.a. um ný gögn, og áttu raunar að gera það samkvæmt laganna hljóðan. Það hefði greitt heilmikið fyrir málinu í þessari umræðu að mínu mati ef hæstv. ráðherra hefði svarað mér núna í andsvari. Hæstv. ráðherra hlýtur að taka til máls og fara yfir þetta og önnur mál til útskýringar.

Það sem stendur eftir og er ósvarað er þetta: Þegar búið var að lögleiða að hæstv. ráðherrar hefðu þessa aðkomu að málunum til að fara yfir þau, taka afstöðu til ábendinga og umsagna sem kæmu og meta ný gögn, af hverju var það ekki gert í þessu tilviki? Var það vegna þess að það hlaut að leiða til þess að virkjun sem áður hafði verið sett í biðflokk færi í nýtingarflokk?

Það virðist blasa við þegar maður skoðar þetta í samhengi að vilji hæstv. ráðherra og hæstv. ríkisstjórnar og ríkisstjórnarflokkanna hafi bara staðið til eins: Að nota þennan möguleika sem opnaðist með nýju löggjöfinni til að stöðva framkvæmdir, koma í veg fyrir framkvæmdir. Það er rétt sem Orkustofnun bendir á að það er búið að raska öllu jafnvægi. Meira að segja Orkustofnun gengur svo langt að segja að þarna sé vegið að sjálfbærri nýtingu vegna þess að verið sé að ýta framkvæmdum inn á jarðhitasvæðin frá vatnsaflsvirkjununum, meira að segja (Forseti hringir.) vatnsaflsvirkjun eins og þessari sem er augljóslega mjög græn virkjun, hvernig sem það mál er skoðað.