141. löggjafarþing — 52. fundur,  13. des. 2012.

vernd og orkunýting landsvæða.

89. mál
[11:49]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S):

Frú forseti. Við ræðum þingsályktunartillögu um áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða. Þetta er mín fyrsta ræða og ég hef beðið í ofvæni eftir því að komast að. Þessi umræða hefur verið mjög málefnaleg, ég hef fylgst með henni, jafnvel langt fram á nótt. Menn hafa farið mjög víða í umfjöllun sinni.

Ég tók eftir því að hv. þm. Árni Páll Árnason ræddi um að þetta væri allt Samfylkingunni að þakka, hún hefði skipað verkefnisstjórnina. Það er rétt hjá honum að tveir ráðherrar sem voru fyrir Samfylkinguna í svokallaðri hrunstjórn og eru enn að störfum skipuðu þessa verkefnisstjórn sem hefur starfað síðan. En menn geta ekki tekið bara heiðurinn af því að hafa skipað þá stjórn. Það var nefnilega þannig að á sama tíma var Sjálfstæðisflokkurinn líka við stjórnvölinn. Honum hefur verið kennt um allt sem illa fór í hruninu eins og hann bæri einn ábyrgð á því, en menn geta ekki tekið bara það góða sem var gert — það var mjög margt gott gert, sérstaklega í velferðarmálum — og þakkað sér það, en kennt svo Sjálfstæðisflokknum um það sem illa fór í sömu ríkisstjórn. Ég vil benda á að tveir ráðherrar voru í þeirri stjórn, hæstv. utanríkisráðherra Össur Skarphéðinsson sem enn situr hér og einnig hæstv. forsætisráðherra Jóhanna Sigurðardóttir sem sat í þessari sömu hrunstjórn. Meira að segja þau málefni sem voru viðkvæmust eins og Fjármálaeftirlitið og Seðlabankinn heyrðu einmitt undir ráðherra Samfylkingarinnar, þannig að þeir báru verulega mikla ábyrgð á hruninu og hafa ekki beðist afsökunar á því.

Ég hef hins vegar beðist afsökunar á því. Ég var þá formaður efnahags- og skattanefndar og hef beðist afsökunar á tiltölulega litlum hlut sem gerðist á minni vakt sem og vakt hæstv. atvinnuvega- og nýsköpunarráðherra, Steingríms J. Sigfússonar, sem sat einnig í þeirri nefnd. Það var skrifaði upp á tiltölulega litla breytingu að okkur virtist en hún hafði mjög afdrifaríkar afleiðingar í hruninu. Ég er búinn að biðjast afsökunar, en hæstv. ráðherra, Steingrímur J. Sigfússon, hefur ekki beðist afsökunar á sínum þætti. Mér finnst að ef menn ætla að skreyta sig með fjöðrum eigi þær að vera báðum megin, menn eigi líka að gangast við ábyrgðinni.

En ég ætlaði að ræða um þetta mál, vernd og orkunýtingu landsvæða. Fyrir 100 árum voru þessar auðlindir ekki til. Jarðvarmi var ekkert nýttur, hann var fyrst nýttur í Reykjavík til húshitunar að einhverju gagni 1944 eða eitthvað fyrr. Það er sem sagt ekki heil öld síðan, frú forseti. Jökulárnar voru til bölvunar í hverri sveit, hindruðu samgöngur, það þurfti að ferja fólk yfir og þær tóku mann og hest. Það er ekki fyrr en mannauðurinn kemur að, verkfræðiþekkingin og öll vitneskjan, að þessi fyrirbæri breytast í auðlindir og þá fara þau líka að verða bitbein.

Við fyrstu virkjanirnar voru menn ekki mikið að spá í umhverfisvernd og annað slíkt, heldur horfðu fyrst og fremst á efnahagslegu þættina enda má segja að þjóðin hafi verið miklu fátækari þá. Það vill svo til að umhverfisvernd stendur í beinu sambandi við efnahagslegan styrk landa eins og sést í Kína og Indlandi þar sem menn leggja fyrst og fremst áherslu á að bæta lífskjörin en ekki að bæta umhverfið, þótt mjög mikil þörf sé á því í einmitt þeim löndum. En með vaxandi ríkidæmi hafa kröfur um umhverfisvernd aukist, menn eru farnir að skilgreina náttúrufyrirbæri sem auðlind og deilurnar hafa vaxið. Nokkrar deilur urðu um virkjun við Búrfell, ekki miklar, síðan hafa þær vaxið og sérstaklega í sambandi við Kárahnjúkavirkjun eða stórvirkjanirnar fyrir austan sem voru nokkrar. Það er búið að fara í gegnum nokkrar stórvirkjanir fyrir austan. Deilurnar náðu hámarki með Kárahnjúkavirkjun, sem mér finnst, ef ég má rétt aðeins bæta við, frú forseti, ein mesta verkfræðisnilld sem við höfum staðið að. Að mínu mati er sú virkjun óskaplega umhverfisvæn. Öndvert við Blönduvirkjun er vatnið leitt í jarðgöngum sem ekki sjást, stöðvarhúsið er neðan jarðar, reyndar eins og í Blöndu, og sést ekki. Það eina sem sést eru línulagnir sem eru ekki beint augnayndi, en þær eru tiltölulega stuttar og ná niður á Reyðarfjörð. Þetta er mjög umhverfisvæn virkjun, stíflumannvirkin eru mjög falleg, passa vel inn í landslagið og eru orðin mikil túrista-„attraksjón“ ef ég má segja það þannig, ferðamenn sækjast eftir að heimsækja staðinn, enda er það núna hægt. Áður en þarna var virkjað var ekki hægt að komast inn á svæðið með góðu móti. Þessi virkjun hefur bætt ferðaþjónustu. Hún hefur eflt mannlíf á Austurlandi og ekki þarf að deila um það.

Samt sem áður voru miklar deilur um Kárahnjúkavirkjun og ég man eftir því að það var spáð jarðskjálfta, stíflan átti að leka, hún átti að hrynja og ég man ekki hvað það var sem ekki kom upp á borð hjá Alþingi og nefndum þess af umsögnum. Það er gaman að lesa þær umsagnir þar sem spáð var heimsenda þegar virkjunin kæmi. Sérstaklega er þetta með jarðskjálftann athyglisvert því að hann átti að koma vegna þess að þunginn á lóninu væri svo mikill. En þegar maður horfir á dæmið í heild sinni, allt svæðið, þá jafnast þetta mikla rennsli sem var á sumrin með virkjuninni, það hvarf og létti á landinu. Núna rennur jafnt og þétt þannig að líkurnar á jarðskjálfta ættu bara að minnka. En ég ætla ekki að tefja mikið við þetta.

Sett var á laggirnar verkefnisstjórn, en þetta verkefni nær miklu lengra aftur en til hrunstjórnarinnar sem Samfylkingin átti þátt í. Þetta nær til 1999, skilst mér. Ég var mjög hlynntur þessu. Ég var mjög hlynntur því að þeir sem voru á móti virkjunum — sumir jafnvel bara af prinsippástæðum, það má ekki virkja neitt — og þeir sem vildu virkja með efnahagsleg sjónarmið í huga og hagsæld þjóðarinnar, næðu einhverri lendingu þannig að það yrðu ekki endalausar deilur um virkjanir með ómálefnalegum rökum eins og komu fram í sambandi við Kárahnjúkavirkjun.

Verkefnisstjórnin skilaði afskaplega góðu verki, mjög góðu að mínu mati. Í skýrslu hennar er tekið tillit til alls konar þátta sem mér hefði ekki dottið í hug að taka tillit til; ferðaþjónustu, hvernig landið lítur út, verndun ósnortinna víðerna og ég veit ekki hvað. Öll sjónarmið eru tekin inn og metin. Það eina sem vantaði var að nefndin setti röð á virkjanir og segði: Við leggjum til að þessi virkjun verði í nýtingarflokki, hún verði nýtt, þessi verði í biðflokki og helst nýtt sem minnst og þessar virkjanir verði í verndarflokki. Þá mundu menn sættast á það. Það vantaði, og það er þetta sem sjálfstæðismenn leggja núna til að verði gert, að faglega verði raðað í flokka en ekki pólitískt.

Það eru að verða gífurlegar breytingar á orkunýtingu. Hellisheiðarvirkjun til dæmis, ég hef verið að ganga þarna í kring og þetta er eins og, ég veit ekki hvað á að segja, krabbamein, það eru leiðslur úti um allt. (Gripið fram í.) Þetta er bara virkilega ljótt og mikil sjónmengun að þessari virkjun. Ég ætla ekki að bera það saman hvað Kárahnjúkavirkjun er miklu fallegri. Þessar leiðslur finnst mér vera mikið lýti við jarðvarmavirkjanir, eins og sjást líka við Mývatn.

Hins vegar er komin ný tækni, skáborun, þar sem menn geta borað frá einum punkti inn í viðkomandi hitalindir og þá hverfa allar þessar leiðslur. Ný tækni er að leiða til þess að sá umhverfisskaði sem fylgir jarðvarmavirkjunum hverfur, en á móti kemur að menn eru að uppgötva að jarðhitavirkjanir eru ekki ótæmandi, þær eru ákveðin geymsla. Hins vegar er vatnsaflsvirkjun þess eðlis, og ég uppgötvaði það nú bara þegar ég var 11 ára eða svo, bjó á bæ sem var við virkjun, að sérhvert tonn af vatni sem fellur niður fjallsbrún kemur aldrei aftur. Það er auðlind sem hverfur og kemur aldrei aftur. Eftir því sem við virkjum fyrr með vatnsaflsvirkjunum þeim mun meira situr eftir til komandi kynslóða af orku, eða nýtingu auðlindarinnar. Við ættum að reyna að komast að samkomulagi um hvað við ætlum að virkja og drífa svo í því.

Það má líka segja að það sé skylda Íslands að virkja. Ég fékk það fram hjá hæstv. umhverfisráðherra á sínum tíma að Kárahnjúkavirkjun sparaði þvílíka mengun fyrir mannkynið miðað við þá mengun sem yrði ef sú raforka væri framleidd með bræðslu kola, gass eða olíu. Það er því miður reglan í heiminum frekar en undantekning að flestar nýjar virkjanir valda gífurlegri koldíoxíðmengun. Kárahnjúkavirkjun sparar meira en sem nemur allri mengun sem íslenski bílaflotinn veldur, þannig að við getum vísað til þess að við séum búnir að kaupa okkur, með Kárahnjúkavirkjun, frelsi frá því að keyra og nota bensín.

Síðan skilar verkefnisstjórnin sinni niðurstöðu og þá gerist dálítið hættulegt. Ég vara þá sem stóðu að því sem þá gerðist, hv. þm. Guðfríði Lilju Grétarsdóttur og hæstv. ráðherra Svandísi Svavarsdóttur, við einu: Það faglega samkomulag sem hafði náðst var skemmt og það kann að skaða umhverfisverndarsinna.

Það eru 135 dagar til kosninga og ef tillagan verður samþykkt, segjum á morgun eða eftir tvo, þrjá daga, verður þetta í raun bara í gildi í 130 daga vegna þess að þegar samkomulagið sem náðist í verkefnisstjórninni var ekki virt og menn fóru að taka kosti úr nýtingarflokki og setja í biðflokk órökstutt, ekki með faglegum rökum eins og verkefnisstjórnin gerði, eyðilögðu þeir í raun samkomulagið. Þá munu þeir sem urðu undir þegar samkomulagið var ekki virt, þeir sem vilja virkja, telja sig geta flutt virkjanir úr verndarflokki í nýtingarflokk eða úr biðflokki í nýtingarflokk vegna þess að samkomulagið var eyðilagt. Þess vegna tel ég svo mikilvægt að menn staldri við og fái verkefnisstjórninni það nýja verkefni að raða virkjunum í flokka þannig að þetta skemmdarverk verði tekið til baka. Ég vil nefnilega hafa samkomulag um virkjanir. Ég vil að menn séu sáttir við það sem gert er, bæði virkjunarsinnar og verndarsinnar. Ég tel að það sem menn gerðu hér sé hreinlega skemmdarverk á því mikla og góða starfi sem unnið hafði verið og ég batt miklar vonir við.

Varðandi virkjanir í biðflokki og jafnvel í verndarflokki þurfa menn að kynna sér þær breytingar á orkunýtingu sem ég gat um að væru í farvatninu, t.d. skáborun og fleiri breytingar. Menn hafa til dæmis talað um sæstreng sem muni hækka verð á raforku, þjóðinni til hagsbóta, vegna þess að þjóðin notar ekki nema lítið brot af raforkunni. Hækkunin mundi þýða að þjóðarbúið fengi mikla hækkun á það sem flutt er út, núna í formi áls. Ég vil geta þess, frú forseti, að mér finnst áliðnaðurinn verða orðinn of mikill, mér finnst áhættan af framleiðslu áls orðin of mikil fyrir þjóðarbúið og hefði viljað taka inn aðra notkun á raforku til að minnka áhættu þjóðarbúsins. (Gripið fram í: Gróðurhús?) Já, eða gagnageymslur, gagnaver, en sæstrengur mun breyta miklu og sennilega er hann svo arðbær að hann borgar sig á örstuttum tíma. Hann mun geta bætt nýtingu vatnsaflsvirkjananna vegna þess að það er hægt að flytja raforkuna fram og líka til baka. Þá er hægt að leyfa sér að tæma lónin. Þá getur fossinn Hverfandi horfið og hægt að víkka út jarðgöngin í Kárahnjúkavirkjun, leyfa lóninu að tæmast öðru hverju í slæmu árferði því að þá mundum við flytja orku inn. Þá næst sennilega fram 10–20% betri nýting á vatnsafli án þess að til komi ný virkjun. Þetta á við allar virkjanir á landinu, það mun nást mikið betri nýting fyrir utan að það er komin ný tækni sem menn hafa verið að skoða. Hún er svo sem ekki ný, hún er eldgömul, en það er að dæla upp vatni upp þegar ofgnótt er af raforku. Síðan er það notað til orkuframleiðslu með því að láta það gossa niður og þannig næst fram mjög áhugaverð nýting, t.d. á vindafli. Eðli málsins samkvæmt er mikil framleiðsla á vindafli þegar er rok en engin þegar er logn, og þá þarf að fylla upp í það. Það er ekki hægt að geyma raforku sem raforku, en það er hægt að geyma hana með því að dæla vatni upp og breyta henni sem sagt í stöðuorku vatns. Þannig að sæstrengur er ný tækni sem örugglega kemur fyrr en seinna og mun bæta nýtingu orkunnar.

Síðan er mjög margt að gerast. Til dæmis er heimsbyggðin að bregðast við og Evrópusambandið er þar fremst í flokki — gott samband, frú forseti, og er að fá friðarverðlaun, ég hef aldrei haft neitt á móti Evrópusambandinu, en við höfum hins vegar ekkert að gera inn í það, það er önnur saga. Evrópusambandið hefur tekið upp kvótaverslun með losunarheimildir og nú er hún að færast yfir á flugið. Ég tel að þetta verði ein mesta auðlind Íslands vegna þess að það vill svo til að við erum með hreina orku. Verð á orku í heiminum mun hækka verulega vegna kvótaverslunarinnar. Raforka sem framleidd er með gasi og kolum og slíku, eins og t.d. í Kína, Indlandi og Arabalöndunum, og þegar þau lönd koma inn í þetta samkomulag sem ég held að gerist fyrr en seinna, frú forseti, mun hækka út af kvótaversluninni, en ekki sú íslenska. Ísland þarf ekki að borga kvóta þannig að orkuverð mun hækka án þess að við þurfum að borga kvóta. Það þýðir ekkert annað en hagnað fyrir íslenskt þjóðarbú, skuldirnar standa í stað en tekjurnar vaxa. Það horfir mjög vel fyrir íslenska orkuframleiðslu í þessu efni og ég tel að kvótaverslun með losunarheimildir muni verða ein mesta auðlind okkar. Þess vegna hef ég verið að ýta á hæstv. umhverfisráðherra og ríkisstjórnina alla um að setja hana í gang, en mér finnst að menn hafi verið mjög tregir þar.

Mér finnst nefnilega að umhverfisverndarsinnar á Íslandi horfi á naflann á sér. Þeir horfa á naflann á sér og segja: Ísland mengar svo og svo mikið, eiga heimsmet í því. Sem er rétt ef aðeins er horft á mengunina, en ef horft er til þess hvað íslensk raforka sparar mannkyninu mikla mengun miðað við raforku sem framleidd er með brennslu gass og olíu leggur Ísland fram ómetanlegan skerf til minni losunar í heiminum. Ál sem framleitt er á Íslandi eða raforka sem nýtt er á Íslandi í eitthvað annað, t.d. í gagnaver, er miklu mengunarfrírri og sparar mannkyninu mikla mengun miðað við að sú starfsemi færi fram í öðrum löndum, t.d. Bretlandi eða annars staðar þar sem orkan er framleidd með brennslu gass. Mér finnst því vera allt að því skylda Íslands að virkja eins og mögulegt er án þess að ganga á náttúruna.

Þess vegna batt ég svo miklar vonir við að menn mundu taka mat verkefnisstjórnar og meta það faglega en krukka ekki í það út frá einhverjum löngunum til að virkja minna eða breyta því faglega mati. Það er einmitt það sem við erum að ræða. Við erum að ræða um pólitíska afstöðu manna sem vilja virkja lítið. Þeir ætla sér að koma vilja sínum fram þvert á hinn stóra massa sem vill virkja, sem vill nýta auðlindina faglega þannig að ekki sé gengið á náttúruna. Samkomulag er rofið og þess vegna óttast ég að eftir 135 daga þegar verður kosið muni menn nýta sér það og fara yfir á hinn endann, til skaða fyrir það fólk sem vill ekki virkja. Þeir umhverfisverndarsinnar sem brjóta þetta samkomulag skaða sinn eigin hóp (Gripið fram í: Rétt.) og það fólk sem vill ekki virkja.

Ég geri ráð fyrir því að menn telji sig óbundna af þessu samkomulagi og þeir muni flytja heilmikið af virkjunum úr biðflokki yfir í nýtingarflokk og úr verndarflokki yfir í biðflokk eða jafnvel nýtingarflokk. Þeir telji sig ekki lengur bundna af þessu samkomulagi. Það getur orðið til að virkjað verði þar sem ella, samkvæmt þessu faglega mati, hefði ekki átt að virkja. Og þegar búið er að virkja eitthvað verður það ekki afvirkjað. Þetta þurfa umhverfisverndarsinnar að hugleiða og þeir sem standa að þessu skemmdarverki á faglegu starfi nefndarinnar. Þeir ættu að hugsa sinn gang verulega og jafnvel að skoða þá hugmynd sjálfstæðismanna að faghópurinn verði kallaður saman aftur og hann raði virkjunum í verndarflokk, nýtingarflokk og biðflokk með faglegum hætti.