141. löggjafarþing — 52. fundur,  13. des. 2012.

vernd og orkunýting landsvæða.

89. mál
[12:24]
Horfa

Birkir Jón Jónsson (F) (andsvar):

Frú forseti. Í framhaldi af orðaskiptum hv. þingmanna finnst mér mikilvægt að draga fram að með því pólitíska kukli sem átti sér stað á lokametrum rammaáætlunar voru sex virkjunarkostir í vatnsafli færðir úr nýtingu í biðflokk. Það segir okkur að þrýstingurinn á að virkja háhitasvæðin sem eru í nýtingarflokknum, þar með talið Krýsuvíkursvæðið, mun aukast gríðarlega. Þess vegna er mér alveg fyrirmunað að skilja að umhverfisverndarsinnar sem vilja standa vörð um þau svæði og frekar geyma að nýta háhitasvæðin uns frekari rannsóknir liggja fyrir, skuli þá standa fyrir því að jafngóðir virkjunarkostir og neðri hluti Þjórsár séu færðir úr nýtingarflokki í biðflokk. Þar með eru þeir að auka þrýstinginn á að farið verði inn á háhitasvæðið. Ég mundi gjarnan vilja heyra hv. þingmann bregðast við því vegna þess að mér sýnist að það verk Vinstri grænna að færa þá sex virkjunarflokka úr nýtingu í bið, muni stórauka þrýsting orkufyrirtækjanna á að nýta háhitasvæðin.

Í annan stað vil ég taka undir með hv. þingmanni þegar hann ræddi um Kárahnjúkavirkjun og þau gríðarlegu áhrif sem sú framkvæmd hefur haft á þjóðarbúið og náttúrlega atvinnusvæði fyrir austan. Ég minni á að það vorum við framsóknarmenn í góðri samvinnu við sjálfstæðismenn sem komu þeirri framkvæmd á koppinn á sínum tíma. Ég held að það hafi verið mjög gott verk og ég tek undir með hv. þingmanni: Að sjálfsögðu eigum við að horfa hnattrænt í umhverfismálum og til þess hversu hreina orkugjafa við Íslendingar eigum til að reka stóran vinnustað eins og álver Alcoa á Reyðarfirði.