141. löggjafarþing — 52. fundur,  13. des. 2012.

vernd og orkunýting landsvæða.

89. mál
[15:31]
Horfa

Unnur Brá Konráðsdóttir (S):

Hæstv. forseti. Við ræðum við síðari umr. tillögu til þingsályktunar um áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða. Þetta er eitt mikilvægasta málið sem við höfum til meðferðar í þinginu og eitt mikilvægasta málið sem við sem þjóð höfum tekist á við á undanförnum árum.

Eins og fram hefur komið var upphaflega hugmyndin á bak við það að búa til þessa rammaáætlun sú að reyna að skapa einhverja sátt milli þeirra ólíku sjónarmiða sem varða annars vegar nýtingu náttúruauðlindanna og hins vegar vernd náttúrunnar. Þingmenn úr öllum stjórnmálaflokkum og menn alls staðar að úr samfélaginu hafa tekið undir þau sjónarmið að rétt sé að fara í vinnu við gerð rammaáætlunar til að reyna að komast eitthvað áfram með þessi mál, til þess að samfélagið logi ekki í illdeilum í hvert skipti sem til stendur að virkja einhvers staðar eða vernda einhvers staðar, heldur reyna að horfa á þetta allt saman í einni heild og líta til þeirra miklu náttúruauðlinda sem við eigum hér á landi, bæði út frá sjónarmiðum verndar og nýtingar, og bera saman þá kosti sem við eigum hér til virkjana út frá því hvar sé best að vernda og hvar virkja.

Þessi hugmyndafræði fellur mér vel í geð og ég vonaði að pólitíkin réði við það að taka hina faglegu niðurstöðu frá verkefnisstjórninni og koma henni í gegnum þingið með þeim rökum sem okkar helstu sérfræðingar hafa safnað saman og nýtt til að raða öllum þeim virkjunarkostum sem til skoðunar komu í röð sem byggir á því að bornir eru saman kostir og úr því verði röð sem sýni okkur hvar sé fýsilegast að virkja og hvar fýsilegast að vernda.

Þess vegna eru vonbrigði að sjá tillöguna sem ber þess merki, eins og ég hef farið yfir í mínum fyrri ræðum, að pólitíkusarnir hafa þurft að setja sitt mark á hana, setja sín pólitísku fingraför á þetta allt saman að því er mér virðist til þess að halda saman þeirri ríkisstjórn sem nú starfar.

Ég tel að við eigum að sýna náttúrunni meiri virðingu en þetta. Ég tel að okkur beri hér, í ljósi alls þess sem hefur verið sagt um þetta mál og tilganginn með því, að bera þá virðingu fyrir náttúrunni að setja hana ofar pólitískum stundarhagsmunum ríkisstjórnar. Ég taldi að þetta væri hægt og tel það í rauninni enn. Eins og ég sagði í gær er ég bjartsýn. Nú líður reyndar tíminn án þess að þessari umræðu sé frestað og menn setjist niður eins og ég kallaði eftir að menn gerðu, en ég hef trú á íslenskum stjórnmálamönnum. Ég hef þá trú að þeir geti breytt vinnubrögðum sínum.

Tíminn er samt að hlaupa frá okkur og ég vonast til þess að þeir fjölmörgu stjórnmálamenn sem líka hafa margoft lýst því yfir, bæði í ræðu og riti, m.a. í þessum stól hér, að þeir vilji taka upp ný og breytt vinnubrögð standi nú við stóru orðin, komi fram, taki undir sjónarmið mín um að þessu máli verði frestað svo menn geti sest yfir það og hafið sig upp úr sínum pólitísku hjólförum og gert það sem upphaflega stóð til, að nota hinar faglegu niðurstöður sem grunninn og leiðarljósið í þessu máli. Ég skora á menn að gera það.

Frú forseti. Ég hef í mínum fyrri ræðum nefnt nefndarálit meiri hluta umhverfis- og samgöngunefndar í þessu máli og mig langar að taka það fram að sú upptalning sem birtist okkur í 13. kafla, um áherslur sem nefndin vill beina til næstu verkefnisstjórnar og ábendingar til ráðherra, er athygliverð og kallar á sérstaka umræðu hér í þessu máli. Við þyrftum eiginlega að hafa sérstaka umræðu um 13. kaflann í nefndaráliti meiri hlutans þar sem er fjallað um þessar ábendingar vegna þess að hann er mjög athygliverður. Þótt ég sé ekki sammála öllum ábendingunum er mjög mikilvægt að við áttum okkur á því að þegar rammaáætlun hefur verið samþykkt í þinginu fer ný verkefnisstjórn af stað (Forseti hringir.) til að skoða þá kosti sem eru í biðflokki og (Forseti hringir.) kanna hvort það séu nýir kostir sem þurfi að skoða.

Frú forseti. Sem áður hleypur tíminn frá mér hér.