141. löggjafarþing — 52. fundur,  13. des. 2012.

vernd og orkunýting landsvæða.

89. mál
[16:52]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er annað í þessum hluta sem mig langar að spyrja hv. þingmann út í, maður er alltaf að hugsa um hvernig málin eru sett fram. Í nefndarálitinu stendur, með leyfi forseta:

„Meiri hlutinn beinir því enn fremur til ráðherra og Alþingis alls að:

a) meta hvort ástæða sé til að rammaáætlun taki einnig til smærri virkjana.“

Hér er hins vegar ekki gerð nein tilraun til að skilgreina þessar smærri virkjanir. Eru það allar virkjanir sem í dag falla ekki undir rammaáætlunina? Er verið að hugsa um að búa til einhver viðmið um stærð eða eitthvað þess háttar? Er það þannig að ef á að nýta bæjarlækinn til framleiðslu á rafmagni fyrir sveitabæinn þurfi það að vera í rammaáætlun? Mér finnst þetta svolítið langt seilst að hafa forræði yfir nánast öllu sem mönnum dettur í hug að gera. (BJJ: Bara öfgar.) Já, það má kalla þetta öfgar, hv. þingmaður. Það má velta því fyrir sér hvort raunin geti virkilega orðið sú að smærri virkjanir, örfá kílóvött, muni þurfa að fara í gegnum það ferli sem hér er um að ræða. Ég get ekki séð það og finnst vanta hér algjörlega rök fyrir þessari hugsun og þessari tillögu til Alþingis. Hér segir reyndar að Alþingi eigi að „meta hvort ástæða sé til“.

Ég vil segja það bara strax að ég held að Alþingi eigi fyrst að beita sér fyrir því að endurskoða núverandi rammaáætlun, verði hún samþykkt hér eða þetta ferli allt saman, áður en menn fara að bæta inn í þessum litlu virkjunum sem oft og tíðum eru hreinlega til þess fallnar að beisla læk eða litla á og gera þá í raun (Forseti hringir.) frekar óskunda en hitt.