141. löggjafarþing — 52. fundur,  13. des. 2012.

vernd og orkunýting landsvæða.

89. mál
[17:48]
Horfa

Frsm. 2. minni hluta um.- og samgn. (Birgir Ármannsson) (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Um þetta andsvar má fara nokkrum orðum, það gefur tilefni til að árétta nokkur atriði. Í fyrsta lagi er hugmyndin á bak við rammaáætlun sú, eins og hv. þingmaður bendir á, að reyna að skapa sem víðtækasta sátt um ákveðið jafnvægi milli nýtingar og verndar. Gengið er út frá þeirri hugmynd í upphafi, þegar lagt er af stað, að um áframhaldandi nýtingu á orkuauðlindum landsins verði að ræða, en það er líka lögð áhersla á að verndarsjónarmiðum sé gert hátt undir höfði og reynt að finna ákveðið jafnvægi milli þessara sjónarmiða með tilteknum aðferðum og vinnulagi. Með öðrum orðum, hvorki er gengið út frá því að öll áherslan eigi að vera á vernd né að öll áherslan eigi að vera á nýtingu. Gert er ráð fyrir því að taka inn þessa þætti og reyndar fleiri til að meta hvort ráðast eigi í einstaka virkjunarkosti eða ekki. Það er hugmyndin.

Hugmyndin, eins og þetta er uppbyggt, er auðvitað sú að með því að vinna þetta á vandaðan og faglegan hátt og hafa ferlið opið og út af fyrir sig á köflum nokkuð flókið sé stuðlað að því að áætlunin geti staðið til lengri tíma fremur en skemmri, að þeir aðilar sem um þessi mál véla, hvort sem um er að ræða orkufyrirtæki, sveitarfélög eða almannasamtök, geti gert ráð fyrir því að þær ákvarðanir sem teknar séu standi til nokkuð langs tíma. Hugmyndafræðin gengur út á að ekki sé skipt um rammaáætlun eins og skipt er um ríkisstjórnir eða skipt um meiri hluta á þinginu.

Framan af tókst þetta býsna vel en síðustu afskipti hæstvirtra ráðherra, áður en málið kemur inn í þingið, verða auðvitað til þess að raska jafnvæginu sem þarna er byggt á og eyðileggja með sínum hætti fyrir (Forseti hringir.) vinnulaginu og aðferðafræðinni eins og hún hefur verið praktíseruð.