141. löggjafarþing — 52. fundur,  13. des. 2012.

vernd og orkunýting landsvæða.

89. mál
[20:55]
Horfa

Birkir Jón Jónsson (F):

Herra forseti. Í máli mínu í dag og í gær hef ég ekki náð að fara yfir allar efnahagslegar forsendur sem tengjast því máli sem við ræðum. Ég hef mikið rætt um virkjanir á Suðurlandi og að búið skuli að færa þar fjölmarga kosti úr nýtingarflokki yfir í biðflokk að kröfu Vinstri grænna. Okkur framsóknarmönnum er hugleikin atvinnuuppbygging á Bakka við Húsavík og í forsendum fjárlagafrumvarpsins fyrir næsta ár er gert ráð fyrir að hagvöxtur verði að einhverju leyti drifinn áfram af atvinnuuppbyggingu þar.

Af hverju nefni ég það í þessu samhengi? Jú, vegna þess að samkvæmt rammaáætlun á að nýta hluta af þeim náttúruauðlindum sem þar eru til atvinnuuppbyggingar á Bakka við Húsavík. Það hefur verið baráttumál Þingeyinga um árabil að nýta þá orku sem er að finna í sýslunni til atvinnuuppbyggingar í heimabyggð, enda veitir ekki af. Heilmikil varnarbarátta hefur átt sér stað á umliðnum árum á norðausturhorni landsins og því er það sjálfsagt réttlætismál að fólk þar, heimamenn, fái að nýta orkuauðlindir sínar til þess að skapa fjölbreytt og öflugra atvinnulíf.

Nú bregður svo við og hefur komið í ljós hér í umræðunni í dag að til þess að hefja slíka atvinnustarfsemi á Bakka við Húsavík þarf að fjárfesta í innviðum, m.a. flutningsmannvirkjum, þ.e. rafmagnslínum frá til að mynda Þeistareykjasvæðinu og niður á Bakka. Fleira þarf til, eins og vegagerð og jafnvel hafnargerð o.fl. til þess að svæðið verði hæft til atvinnuuppbyggingar, þ.e. til þess að nýta orkuna á Bakka við Húsavík. Heimamenn telja að það þurfi 2,8 milljarða til að fjárfesta í innviðum þannig að svæðið verði tilbúið undir slíka atvinnuuppbyggingu.

Þegar rýnt er í fjárlagafrumvarp fyrir árið 2013 kemur hið undarlega fram að ekki er króna áætluð til þess að styrkja innviðina til að búa atvinnulíf á svæðinu undir iðnaðaruppbyggingu á Bakka. Þá veltir maður í fyrsta lagi fyrir sér hvort forsendur fjárlagafrumvarpsins haldi. Það verður náttúrlega engin uppbygging nema slík fjárfesting eigi sér stað og að ríkisstjórnin standi með heimamönnum í slíkri uppbyggingu. Í öðru lagi hlýtur maður að velta því fyrir sér hvort það sé í raun og veru eitthvað að marka hin digru loforð sem ríkisstjórnin hefur verið að senda norður í land um að Þingeyingar skuli búa sig undir heilmikla uppbyggingu í atvinnumálum. Ég vonast nú til þess að Framsóknarflokkurinn komi að verkum eftir næstu kosningar og að þá verði hægt að setja innspýtingu í atvinnulífið á svæðinu og búa það undir það að hefja atvinnuuppbyggingu með orkunni úr Þingeyjarsýslum. En eins og staðan er núna er ekkert í fjárlagafrumvarpi ríkisstjórnarinnar sem bendir til þess að fjárfesta eigi í slíkum innviðum sem eru jú forsenda þess að uppbygging af þessu tagi geti átt sér stað.

Mér finnst nauðsynlegt að það sé rætt í umræðu um uppbyggingu orkukosta og eins hvernig við ætlum að nýta orkuna. Ef innviðirnir verða ekki styrktir, eins og heimamenn hafa talað fyrir og lagt að ríkisstjórninni að aðstoða sig við, er hætt við að orkan verði mögulega flutt burt af svæðinu. Við framsóknarmenn höfum ályktað um að slíkt komi ekki til greina. Það er mjög mikilvæg umræða hvernig við högum orkunýtingu til framtíðar litið. Mér finnst þarft að ræða það málefni sérstaklega hér, kannski ekki síst af því að ég er oddviti og þingmaður framsóknarmanna í Norðausturkjördæmi, vegna þess að ef af verður verður hægt að skapa hundruð starfa á þessu svæði sem hafa mun gríðarleg áhrif, ekki bara fyrir Þingeyjarsýslur heldur fyrir Eyjafjarðarsvæðið allt og jafnvel austur á land. Tækifærin eru svo sannarlega til staðar.

Ríkisstjórnin þarf að sýna fram á að henni sé alvara með að standa að baki þessari atvinnuuppbyggingu, en miðað við að heilir sex virkjunarkostir eru teknir úr nýtingarflokki og settir yfir í biðflokk sýnist mér það ekki beinlínis vera áhersla ríkisstjórnarinnar að stuðla að mikilli uppbyggingu í þeim geira atvinnulífsins.