141. löggjafarþing — 53. fundur,  14. des. 2012.

húsnæðismál á Austurlandi.

[10:57]
Horfa

Jónína Rós Guðmundsdóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Ég þakka þessar jákvæðu undirtektir hæstv. ráðherra, enda átti ég ekki von á öðru en að þær yrðu á þann veg.

Mig langar einnig að beina því til hæstv. ráðherra hvort ekki þurfi að skoða þetta mál í kerfinu heildstætt. Þarna er um mjög flókið mál að ræða vegna þess að engar tryggingar virðast ná yfir þessa tegund tjóna. Það þarf því að skoða tryggingahlutann. Það er greinilegt að eitthvað er byggingareftirlitið ekki í nógu góðu lagi. Þar að auki virðist þessi tegund veikinda vera vanmetin í heilbrigðiskerfinu því að oft og tíðum þegar fólk leitar læknis er leitað að öðrum skýringum. Ég held að í raun og veru séu síendurtekin slík mál að koma upp. Maður heyrir um fleiri og fleiri sem eru í þeirri stöðu að þurfa að leggja fram mikla fjármuni því að jafnvel húsbúnaður og annað er ónýtt vegna þessarar (Forseti hringir.) myglu. Ég spyr því hæstv. ráðherra hvort ekki þurfi að skoða málið heildstætt.