141. löggjafarþing — 53. fundur,  14. des. 2012.

vernd og orkunýting landsvæða.

89. mál
[11:08]
Horfa

Jón Gunnarsson (S):

Virðulegi forseti. Vegna ummæla hæstv. forsætisráðherra í umræðunni áðan um þann trúnaðarbrest sem orðinn er á milli Alþýðusambands Íslands og ríkisstjórnarinnar verður að segja að sannleikanum verður hver sárreiðastur. Ef gluggað er í yfirlýsingu ríkisstjórnarinnar vegna kjarasamninga frá 5. maí 2011 er auðvitað heilmikil tenging á milli þess máls sem við ræðum nú, þ.e. rammaáætlunar um verndun og nýtingu orkuauðlindanna, næstu skrefa í virkjunarmálum og þeirra vanefnda sem Alþýðusamband Íslands heldur fram að hafi orðið af hálfu ríkisstjórnarinnar í þessum málum.

Hæstv. ríkisstjórn hefur algerlega mistekist að efla hér fjárfestingu í landinu, eyða atvinnuleysi, auka verðmætasköpun. Það eru þessir grunnþættir sem eru síðan grunnurinn að því að styrkja gjaldmiðilinn og bæta lífskjör í þessu landi. Á meðan ekki verður fylgt annarri stefnu í atvinnumálum en hæstv. ríkisstjórn hefur boðað, sem er í raun ekkert annað en innihaldslaust froðusnakk, munum við búa við þann veika hagvöxt sem er í þessu landi, hagvöxt sem ekki byggir á raunverulegri verðmætaaukningu en er einhvers konar neysluhagvöxtur, en við munum ekki ná vopnum okkar. Það hefur ítrekað komið fram í umræðunni og það er grunnurinn að því sem er að finna í gagnrýni Alþýðusambands Íslands.

Ég ætla aðeins að fara yfir yfirlýsinguna, með leyfi forseta. Þar segir:

„Með þessari yfirlýsingu skuldbinda stjórnvöld sig til að vinna af einurð að því að leggja grunn að varanlegum hagvexti og velferð.“

Hefur það tekist? Nei.

Þar segir áfram.

„Meginatriðið er að örva hagvöxt með arðsömum og sjálfbærum fjárfestingum, án þess að markmiðum um afkomu ríkissjóðs sé ógnað.“

Hefur það gengið eftir? Það þarf ekkert að deila um það. Hér er fjárfesting í sögulegu lágmarki.

Þar segir einnig:

„Mikilvægt er að aðilar vinnumarkaðarins og stjórnvöld gangi samhent til þeirra verkefna sem fram undan eru við endurreisn samfélagsins og er brýnt að allir aðilar eigi með sér reglubundið og náið samráð á samningstímanum. Stjórnvöld eru reiðubúin til að stuðla að því að svo verði, m.a. með því að skuldbinda sig til að framkvæmd kjarasamninga verði háð því að þau áform sem hér er lýst nái fram að ganga.“

Stjórnvöld skuldbinda sig til að láta þessi fjárfestingaráform ná fram að ganga. Hér er vitnað til þess að fjárfestingar eigi að fara úr 13% af landsframleiðslu í 20%. Hefur það gengið eftir? Hér segir líka að kostnaður ríkissjóðs vegna yfirlýsingarinnar sé verulegur en að ríkisstjórnin hafi náð þvílíkum tökum á hallarekstri ríkissjóðs að nú sjái ríkissjóður sér fært að standa við bakið á launamönnum og atvinnulífi með umfangsmiklum aðgerðum.

Hér segir að lækka eigi atvinnutryggingagjaldið. Hefur það gengið eftir? Nei, það er svikið. Hér er talað um í sókn í atvinnumálum, sem er nú kannski grunnurinn að öllu því sem Alþýðusambandið vitnar til og gagnrýnir að það sé sameiginlegt markmið stjórnvalda og aðila vinnumarkaðarins að vinna bug á atvinnuleysi og skapa fjölbreytt og vel launuð störf hér á landi. Stjórnvöld eru reiðubúin til samstarfs við samtök launafólks og atvinnurekenda um sókn í atvinnumálum.

Hér er farið yfir marga aðra þætti og þegar kemur að orkumálum segjast stjórnvöld vilja greiða fyrir aukinni fjárfestingu á sem flestum sviðum, einkanlega þeim sem stuðla að auknum útflutningstekjum. Lögð verður áhersla á fjárfestingar í virkjun. Svo ræðum við rammaáætlun sem spilar eitthvert stærsta hlutverkið í öllu þessu, hún ætti að vera sá grunnur sem við byggjum á. Er eitthvað skrýtið að verið sé að væna ríkisstjórnina um svik? Það liggur í augum uppi þegar það er lesið sem býr að baki ásökuninni og það er ósæmandi (Forseti hringir.) fyrir hæstv. forsætisráðherra og aðra fulltrúa þessarar ríkisstjórnar í ríkisstjórnarflokkunum að reyna að halda því fram að málum sé öðruvísi háttað. Það er ósæmandi.