141. löggjafarþing — 54. fundur,  17. des. 2012.

fjárveiting til löggæslumála.

[10:41]
Horfa

innanríkisráðherra (Ögmundur Jónasson) (Vg):

Hæstv. forseti. Ég vil fullvissa hv. þingmann um að það viðbótarfjármagn sem lagt er til að renni til lögreglunnar mun skipta sköpum fyrir hana. Það á við um löggæsluna eins og ýmsa aðra útgjaldaþætti hins opinbera að þar hefur verið dregið verulega saman á undanförnum árum í viðleitni til að ná hallanum á ríkisbúskapnum í viðunandi horf. Við gerð fjárlaga fyrir næsta ár var horft sérstaklega til löggæslunnar. Þar voru reistar minni aðhaldskröfur á hendur henni en nánast allri annarri starfsemi í landinu.

Í samræmi við skýrslu sem ég kynnti ríkisstjórninni þarf hins vegar að bæta í og meiri hluti fjárlaganefndar hefur orðið við þeirri hugsun, skulum við segja, þannig að komin er tillaga um að leggja fram meira fjármagn til löggæslunnar. Ég tel að það sé mjög mikilvægt að svo verði.

Ég vil spyrja hv. þingmann, sem beindi þessari ágætu spurningu til mín, mér til upplýsingar og einnig þinginu og þjóðinni: Er það ekki rétt skilið hjá mér að Sjálfstæðisflokkurinn vilji gera allt í senn, að reyna að ná betri böndum á ríkisfjármálum, lækka skatta og draga sums staðar úr útgjöldum? Ef hugmyndir eru um að breyta áherslum hvað þetta snertir þætti mér fróðlegt að fá upplýsingar um það við þessa umræðu. Hvernig ætlar Sjálfstæðisflokkurinn að afla viðbótartekna eða er hann með hugmyndir um að skera annars staðar niður en í löggæslunni? Í heilbrigðisþjónustunni? Í menntakerfinu? Hvaða hugmyndir hefur Sjálfstæðisflokkurinn þar að lútandi?