141. löggjafarþing — 54. fundur,  17. des. 2012.

aðildarumsókn Íslands að ESB.

[10:51]
Horfa

atvinnuvega- og nýsköpunarráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg):

Frú forseti. Hv. þingmaður getur ekki tekið því illa þótt vísað sé til þess sem hv. þingmaður eyddi mestum hluta ræðutíma síns í, þ.e. að rekja vandræðagang af ýmsu tagi og deilumál sem uppi væru innan Evrópusambandsins. Ég tel að við hljótum að leggja okkar sjálfstæða mat á hagsmuni okkar og stöðu í þessum efnum óháð því hvernig samskipti ganga milli Breta og Frakka eða annað í þeim dúr.

Já, ég hygg að það sé rétt að það sé nokkur stækkunarþreyta orðin í Evrópusambandinu. Til að mynda eru Frakkar sagðir lítt áhugasamir um að leggja mikið meira á sig í bili. Þeir telja að Evrópusambandið þurfi að einbeita sér að því að leysa þau vandamál sem þar eru uppi áður en það fer að takast á við önnur og stærri verkefni, án þess að ég segi að Ísland skipti sköpum í þeim efnum.

Ég vísa til þess sem ég sagði áður; ég tel að nú undir lok ársins, að lokinni ríkjaráðstefnunni, sé ágæt staða til að fara yfir stöðuna og það hvernig við höldum (Forseti hringir.) á málinu á þeim mánuðum sem eftir eru fram að kosningum auk þess sem augljóst er að staða þessa máls á næsta kjörtímabili er opin bók.