141. löggjafarþing — 54. fundur,  17. des. 2012.

vernd og orkunýting landsvæða.

89. mál
[11:57]
Horfa

Sigurður Ingi Jóhannsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni svörin um þetta. Ég veit ekki hvort ég náði nákvæmlega inntakinu í ræðu hans um hvort hann væri sammála því að taka út jarðvarmavirkjanir, ef hann hefði sjálfur fengið að ráða, eða hvort hann væri í einhverjum tilvikum sammála því að einhverjar af þeim vatnsaflsvirkjunum sem voru teknar út ættu heima í rammaáætluninni. Ég spyr um þetta vegna þess að ég trúi því enn að til þess að rammaáætlun njóti þess sess að vera sú áætlun sem lagt var af stað með, að njóta víðtækari sátta en ella og eiga þar af leiðandi lengri lífdaga fyrir höndum en fyrstu dagana eftir næstu alþingiskosningar, þurfi að setjast niður og finna einhverja þá leið sem (Forseti hringir.) sætti betur ólík sjónarmið en þingsályktunartillagan frá meiri hluta (Forseti hringir.) umhverfis- og samgöngunefndar gerir.