141. löggjafarþing — 54. fundur,  17. des. 2012.

vernd og orkunýting landsvæða.

89. mál
[12:43]
Horfa

Sigurður Ingi Jóhannsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Varðandi það einmitt að hér sé næg orka til nú þegar er líka rétt að segja að rammaáætlun gildir til langs tíma. Er þá ekki líka skoðun hv. þingmanns að það að setja kosti í orkunýtingarflokk þýði ekki þar með að þeir verði nýttir? Auðvitað þurfa þeir að fara í umhverfismat og arðsemismat og allt annað sem tilheyrir.

Það er uppi merkileg staða, að síðustu fjögur eða fimm árin hafi í raun engin orkusala verið til erlendra aðila fyrir utan álverið í Straumsvík. Nú búum við svo vel að vera með endurnýjanlega orkugjafa. Það er öfundsverð staða og því hefur verið haldið fram að á næstu árum krefjist alheimurinn þess hreinlega af enn meiri þunga að þær vörur sem verða framleiddar verði framleiddar með orku úr endurnýjanlegum orkugjöfum sem eru nýttir á sjálfbæran hátt. Telur þá ekki hv. þingmaður að það sé skylda okkar að líta til þess líka? Auðvitað þurfum við að líta til eigin efnahagslegra og samfélagslegra áhrifa en jafnframt til (Forseti hringir.) víðari átta. Smátt og smátt eykst þrýstingurinn og kaupendamarkaðurinn að þessari orku, einfaldlega vegna þessara jákvæðu (Forseti hringir.) umhverfislegu áhrifa sem orkan okkar hefur, ekki satt?