141. löggjafarþing — 54. fundur,  17. des. 2012.

vernd og orkunýting landsvæða.

89. mál
[16:54]
Horfa

Einar K. Guðfinnsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Þó að bestu rammagerðarmenn landsins hafi verið fengnir til að reyna að útbúa þennan ramma liggur það fyrir að áður en hann í rauninni er orðinn að brúklegu plaggi eða brúklegum hlut þá er hann farinn á límingunum. Það sjáum við í allri þeirri umræðu sem átt hefur sér stað. Rauði þráðurinn í allri umræðunni hefur verið orðið sátt og það var auðvitað það sem menn ætluðu sér að reyna að ná fram — sátt.

Nú spyr maður, þegar umræðan hefur staðið þennan tíma, við hvern hefur sáttin tekist? Hefur hún tekist við heildarsamtök launþega? Nei. Hefur hún tekist við atvinnulífið? Nei. Hefur hún komið fram í umræðunum hér í þinginu? Nei. Eigum við þá ekki bara að horfast í augu við það að eitthvað hafi farið óskaplega mikið úrskeiðis? Þá vaknar spurningin: Hvar gerðist það? Hvað eru þessir aðilar að gagnrýna? Hvað höfum við einkanlega verið að gagnrýna, við sem höfum talað með gagnrýnum hætti um þessa tillögu? Hvað hefur Alþýðusamband Íslands lagt fram í þessum efnum? Hvað hafa Samtök atvinnulífsins lagt fram í þessum efnum?

Ég sat ágætan fund síðastliðinn laugardag með Samtökum atvinnulífsins og ASÍ og forseti ASÍ sagði einfaldlega: Það sem við teljum að eigi að gera er setja þessa sex virkjunarkosti — sem voru áður í drögum að þingsályktun í nýtingarflokki en settir voru í biðflokk — í nýtingarflokk. Nú vil ég spyrja hv. þingmann: Er hann sammála mér um það að í stað þess að tala um einstaka virkjunarkosti eins og menn gerðu í gamla daga væri skynsamlegt á þessum grundvelli að segja: Það eru þessir sex virkjunarkostir sem umræðan snýst svo mikið um núna sem mundu leiða fram meiri sátt en áður hefur verið. Að minnsta kosti við ASÍ, að minnsta kosti við Samtök atvinnulífsins og að minnsta kosti við þau stjórnmálaöfl sem hafa haft mestar áhyggjur af því sem er að gerast varðandi þessa rammaáætlun.