141. löggjafarþing — 54. fundur,  17. des. 2012.

vernd og orkunýting landsvæða.

89. mál
[17:01]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég ætla að byrja á að leyfa mér að lesa upp úr áliti Orkustofnunar, fyrst hv. þingmaður nefndi það. Þar er fjallað um þá ákvörðun að færa virkjanir, m.a. í Þjórsá, um flokk. Þar segir, með leyfi forseta:

„Það er mat Orkustofnunar að með þessu verði markmiðum um sjálfbæra uppbyggingu raforkuframleiðslunnar stefnt í hættu. Þrýstingur á hraðari nýtingu jarðvarmans eykst, það tæknilega og efnahagslega öryggi og þar með sú hagkvæmni, sem fæst með því að virkja samhliða jarðhita og vatnsafl verður ekki fyrir hendi.“

Þetta er að sjálfsögðu áhyggjuefni sé það rétt að þrýstingur geti myndast á jarðhitann þar sem við erum veikari fyrir, ef má orða það þannig, í þekkingu og reynslu og öðru. Og það eru líka að koma í ljós ákveðnir gallar á jarðhitanum. En við verðum að finna lausnir á honum fyrst og fremst til þess að geta nýtt hann áfram. Hv. þingmaður nefndi líka að ríkisstjórnin hefði einhvers konar stuðningshóp á þingi fyrir sig eða stuðningsnet og það er að sjálfsögðu hárrétt. Það er alltaf hlaupið upp til handa og fóta þegar á þarf að halda, sem hlýtur að vera mjög gott fyrir ríkisstjórn að þurfa ekki að reiða sig á eigin meiri hluta.

Ég vil þó að endingu nefna það að óánægja var og er með niðurstöðu verkefnisstjórnarinnar, bæði hjá þeim sem vilja nýta raforkuna og líka þeim sem vilja vernda og friða fleiri svæði. Ég held að þó svo að sex kostir hafi verið færðir úr nýtingu í bið sé óánægja enn þá líka hjá þeim sem vilja vernda meira. Það hefur þá jafnframt aukið á óánægju hinum megin. Sú leið sem var farin hér og við höfum talað mikið um og reynt að fá fólk til að snúa til baka til að auka þá sátt sem varð, niðurstaðan er sú að sáttin er (Forseti hringir.) að engu orðin.