141. löggjafarþing — 54. fundur,  17. des. 2012.

vernd og orkunýting landsvæða.

89. mál
[20:30]
Horfa

Vigdís Hauksdóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka fyrir þetta andsvar. Þingmaðurinn fór yfir það að ekki sé hægt að flokka Íslendinga bara í verndarsinna og virkjunarsinna. Tillaga starfshópsins, verkefnisstjórnarinnar, gekk einmitt út á að sætta þessi sjónarmið. Það er heila málið. Þar liggur að baki 14 ára samfelld vinna þeirra aðila sem hafa beitt sér mest í báðum fylkingum og þeirra sem skipa þann stóra hóp sem er á milli og úr varð þetta plagg sem var óumdeilt, leyfi ég mér að segja, að nokkru leyti. Allir gáfu eftir eins og þarf að gera í 14 ára samningaviðræðum. Það þurfa flestir að gefa lítillega eftir og lúta því og fá þá eitthvað í staðinn. Út á það ganga samningaviðræður.

Þá kemur þessi ógæfusama ríkisstjórn fram á sjónarsviðið og setur fingraför sín á þetta plagg sem er afar sorglegt og hvar stöndum við í dag? Málið er fast í þinginu. Mikill minni hluti þjóðarinnar fylgir ríkisstjórninni í þessu máli eins og svo mörgum öðrum málum. Við skulum bara sem dæmi nefna Icesave-samningana, af því að þeir eru mér hugleiknir, þegar fór fram bindandi þjóðaratkvæðagreiðsla um það hvort skuldsetja ætti þjóðina næstu áratugi. Þannig er það með þessa ríkisstjórn.

Virðulegi forseti. Þingmaðurinn hvatti til þess að ríkisstjórnin mundi reyna að losa þann hnút sem hún er í og talaði um sært stolt ríkisstjórnarinnar. Það er bara ein leið út úr þessu máli að mínu mati og ég spyr þingmanninn: Er ekki eina leiðin til að leysa hnútinn að boða til kosninga?