141. löggjafarþing — 54. fundur,  17. des. 2012.

vernd og orkunýting landsvæða.

89. mál
[20:32]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (S) (andsvar):

Herra forseti. Síðustu spurningunni ætla ég að svara fyrst. Nei, það er ekki eina lausnin í því sem tengist rammanum að boða til kosninga. Það er hins vegar skynsamlegasta lausnin til að leysa hnútana ekki bara varðandi rammaáætlun heldur líka sjávarútvegsmálin, stjórnarskrána og öll þessi stóru mál sem eru algerlega í steik hjá stjórninni að boða nú þegar til kosninga. Ég held að við séum orðin sjóuð í kosningum á þessu kjörtímabili og okkur ætti ekki að vera neitt að vanbúnaði að efna sem fyrst til kosninga, svo því sé til haga haldið.

Það sem mér finnst hins vegar sorglegt, og þess vegna segi ég að kosningar séu ekki eina lausnin varðandi rammaáætlun, er að við sjáum tækifærin hvert á fætur öðru fljóta fram hjá okkur og þau eru ekki gripin. Þeir sem standa fremst á árbakkanum, þ.e. ríkisstjórnarflokkarnir, eru ekki tilbúnir til að grípa tækifærin þegar þau sigla hjá og þau eru raunverulega til staðar, við tölum um það af einlægni.

Ég er ekki sammála öllu því sem stendur í rammaáætlun. Ég var ekki endilega sammála öllu því sem verkefnisstjórnin setti upp, t.d. Bitru. Bitra er núna komin í verndarflokk og ég fagna því sérstaklega en ég hef sjálf ekki efni á því þegar ég er búin að skuldbinda mig pólitískt til að hlíta tillögum verkefnisstjórnarinnar að taka einn kost umfram annan og setja hann í vernd. Ég hef dregið fram ýmsa aðra kosti sem ég fagna sérstaklega að séu komnir í verndarflokk, aðrir ekki. Sumir eru í biðflokki sem er gott en ég sakna þeirra kosta sem niðurstöður verkefnisstjórnarinnar gáfu augsýnilega til kynna að ættu að vera í nýtingarflokki, til að mynda Holtavirkjun og Hvammsvirkjun (Forseti hringir.) sem hugsanlega væri hægt að fara af stað í sem og Norðlingaölduveitu. (Forseti hringir.) Það eru þessi atriði sem ég á við þegar ég segi að það sé synd að sjá að tækifærin séu ekki gripin (Forseti hringir.) þjóðinni til heilla.