141. löggjafarþing — 55. fundur,  18. des. 2012.

störf þingsins.

[11:02]
Horfa

Illugi Gunnarsson (S):

Virðulegi forseti. Vegna þeirra ummæla sem hér féllu varðandi Feneyjanefndina og bréf það sem hv. þingmenn Ólöf Nordal og Birgir Ármannsson sendu til nefndarinnar er rétt að taka fram að sú ákvörðun að leita til nefndarinnar upphaflega var aldrei borin undir stjórnarandstöðuna, í það minnsta ekki Sjálfstæðisflokkinn. Það bréf sem sent var upphaflega til nefndarinnar var heldur ekki sent í samráði við stjórnarandstöðuna, í það minnsta ekki Sjálfstæðisflokkinn. Við komumst bara að því síðar. Gerð var krafa af okkar hálfu og einnig Framsóknarflokksins, veit ég, að fulltrúi frá stjórnarandstöðunni færi á þennan fund, þannig að það væri ekki bara fulltrúi stjórnarmeirihlutans sem gerði grein fyrir málinu.

Virðulegi forseti. Nú hefur komið fram í máli hv. þm. Valgerðar Bjarnadóttur að hún hafi, eins og hún sagði, gert grein fyrir málinu og það hefði verið mikil ánægja og spenningur með það. Ég gef mér að hv. þm. Valgerður Bjarnadóttir hafi farið jafnítarlega yfir þær athugasemdir sem stjórnarandstaðan hefur haft um málið, þær athugasemdir sem fjölmargir fræðimenn á þessu sviði hafa haft um málið, rétt eins og þau sjónarmið sem stjórnarmeirihlutinn hefur í þinginu. Ég gef mér að svo hafi verið.

Það liggur fyrir að nokkuð er í það að endanleg niðurstaða komi frá Feneyjanefndinni. Spurningin er auðvitað þessi: Er ekki alveg öruggt, virðulegi forseti, að málið verði ekki klárað frá Alþingi fyrr en sú niðurstaða verður komin? Það er ekki svo að allt velti á áliti Feneyjanefndarinnar, að sjálfsögðu ekki, en þetta verður mikilvægt innlegg (Forseti hringir.) og því verður vart trúað að byggt verði á einhvers konar bráðabirgðaniðurstöðu frá þeirri nefnd.