141. löggjafarþing — 55. fundur,  18. des. 2012.

vernd og orkunýting landsvæða.

89. mál
[12:02]
Horfa

umhverfis- og auðlindaráðherra (Svandís Svavarsdóttir) (Vg):

Frú forseti. Ég þakka fyrir afar góða umræðu. Fyrst aðeins um það sem mönnum hefur orðið tíðrætt um, þ.e. sjálfstæðismönnum og framsóknarmönnum, umræðuna um ferlið. Ferlið með stórum staf sem var samþykkt með lögum sem enginn var á móti. Sjálfstæðismenn og framsóknarmenn greiddu atkvæði með ferlinu, líka með 10–12 vikna opnu umsagnarferli, líka því að ráðherrarnir legðu tillöguna fram. Þegar tillagan er svo lögð fram samkvæmt þeirra eigin leikreglum beina þeir spjótum sínum að þeim, leikreglunum, sjálfu ferlinu sem þeir samþykktu. Þessu þurfum við að halda til haga.

Virðulegur forseti. Mér leið hér áðan eins og þingsalurinn væri grænni en nokkru sinni fyrr þegar jafnvel stjórnarandstæðingar voru svo hófstilltir í orðavali að þeir töluðu um að það þyrfti að fara varlega. Það er ánægjuefni. Hér eru gríðarlega mikilvæg þáttaskil, umræðunni er lokið og sjónarmiðin eru löngu komin fram. Það er klárt að enginn er alsæll með þá tillögu sem hér liggur fyrir enda erum við ekki að greiða atkvæði um persónulega afstöðu hvers og eins.

Hér liggur fyrir að 16 hugmyndir eru settar í nýtingarflokk, þær eru settar í flokk þeirra möguleika sem má virkja að uppfylltum öllum öðrum skilyrðum. Þessir 16 möguleikar gætu orðið 8,5 teravattstundir þar sem nú þegar eru virkjaðir 17 í landinu, frá upphafi. Það er nú allt stoppið og það er öll tregðan og öll öfgasjónarmiðin. Að mínu mati mættu þessar teravattstundir vera miklu færri, en tónninn í tillögunni byggir á hugsuninni um að náttúran njóti vafans, að við verðum að eyða vafa sem mest með rannsóknum og ítarlegri skoðun í samræmi við alþjóðlega samninga. Við viljum að forsendur endanlegra ákvarðana séu sem skýrastar og réttastar. Hér er þess freistað að byggja á ítarlegri vinnu og skoðun sem snýst sem betur fer um fleiri sjónarmið en þau að virði náttúrunnar mælist eingöngu í þeirri orku sem hún mögulega býr yfir. Náttúran er grundvöllur vaxandi atvinnugreinar sem er ferðaþjónustan, hún er aðdráttaraflið sem laðar að allflesta þá gesti sem hingað hafa komið og eiga eftir að koma.

Skilningur hefur verið á því en jafnframt því sjónarmiði að náttúruna þurfi að verja náttúrunnar sjálfrar vegna. Náttúran myndar nefnilega vef þar sem allir þættir hafa sitt hlutverk og ekkert getur án annars verið. Sérhvert inngrip þarf að skoða með hliðsjón af heildinni og því samspili sem myndar þessa heild og því samspili sem maðurinn er svo auðmjúkur hluti af. Vefurinn, þessi heild, þarf að vera fyrir hendi til að maðurinn þrífist og eigi sér framtíð. Þannig er náttúruvernd í sjálfu sér forsenda lífs á jörðunni til langrar framtíðar.

Í tillögunni felast stærri skref í þágu náttúruverndar en nokkru sinni hafa verið rædd í þingsal. Það er fagnaðarefni, gríðarlegt fagnaðarefni. Að auki er lögð áhersla á það í ítarlegu nefndaráliti að fjölmargir þættir verði áfram til skoðunar og þá sérstaklega þeir sem varða jarðhitasvæðin. Umræða undanfarinna missira hefur sem betur fer orðið til þess að skilningur hefur aukist á þeim, við vitum meira um hliðarverkanir jarðhitanýtingar, við vitum meira um brennisteinsvetni, affallsvatn og skjálftavirkni — þó ekki nóg, en við vitum að hvert skref verður að stíga af ábyrgð og varfærni, líka þar sem svæði falla í nýtingarflokk, hvert einasta skref.

Ég vil þakka hv. umhverfis- og samgöngunefnd fyrir að hafa skilað sérlega krefjandi verkefni með miklum sóma. Nefndarálitið er nánast útgáfuhæft sem jólabók, ég hef hugsað mér að fá nokkur eintök árituð af höfundum þess til að gefa í jólagjafir vegna þess að ég tel að það sé gríðarlega mikilvægt og merkilegt plagg sem sé vel þess virði fyrir okkur öll að staldra við og lesa meðan við íhugum þá mikilvægu stund þegar við greiðum atkvæði í þágu sáttar og framtíðar.