141. löggjafarþing — 55. fundur,  18. des. 2012.

fjárlög 2013.

1. mál
[13:07]
Horfa

Frsm. 2. minni hluta fjárln. (Höskuldur Þórhallsson) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Við höfum ekki lagst gegn allri tekjuöflun, hvað þá að draga eigi veiðigjaldið til baka. Við vorum hins vegar á móti þeim gríðarlegu hækkunum sem ríkisstjórnin lagði af stað með og hún lækkaði sjálf. En við erum vissulega á móti því þegar raforkuverð er hækkað á almenning, hvað þá á þá sem hita þurfa upp húsin sín með rafmagni í hinum dreifðu byggðum, til þess eins að fara í einstök gæluverkefni í hinni svokölluðu fjárfestingaráætlun sem mun því miður ekki skila neinum hagvexti eins og greiningaraðilar hafa ítrekað bent á. Það er alveg rétt, við erum svo sannarlega á móti því.

Það er rangt að bera sig saman við erlendar þjóðir sem ekki fóru jafndjúpt og Ísland. Það skiptir öllu máli að við horfum til þeirra aðstæðna sem Ísland býr við. Það voru allar forsendur á árinu 2009 fyrir því að ná hér upp meiri hagvexti en þessi ríkisstjórn (Forseti hringir.) hefur náð. Og þar liggur hundurinn grafinn, (Forseti hringir.) ríkisstjórnin hefur því miður ekki náð þeim markmiðum sem mjög auðvelt var að ná (Forseti hringir.) og voru lágstemmd.