141. löggjafarþing — 55. fundur,  18. des. 2012.

fjárlög 2013.

1. mál
[15:34]
Horfa

Frsm. 2. minni hluta fjárln. (Höskuldur Þórhallsson) (F) (frh.):

Virðulegi forseti. Ég var bara rétt að komast á skrið. Svo ég haldi áfram þar sem frá var horfið var ég hér að fara yfir þau markmið sem ríkisstjórnin setti sér í skýrslu fjármálaráðherra um jöfnuð í ríkisbúskapnum fyrir árin 2009–2013. Ég er búinn að rekja hér að því miður er ríkisstjórnin langt frá þeim markmiðum sem hún sjálf setti sér. Það er sorgleg niðurstaða, hv. þingmenn Samfylkingarinnar. Þeir hafa fylkt liði í salinn og vilja læra eitt og annað við íslenska fjármálagerð.

Þær forsendur sem ríkisstjórnin gaf sér komu fram í þjóðhagsspá fjármálaráðuneytisins sem birt var 12. maí 2009. Eðli málsins samkvæmt var gert ráð fyrir miklum samdrætti í innlendri eftirspurn á því ári, það hafði jú orðið bankahrun, en smám saman mundi fara að rofa til árið 2010 og hagvöxtur yrði nokkur árin 2011–2013. Áætlað var að hagkerfið mundi þá þróast í átt til meira jafnvægis með lágri verðbólgu, minnkandi viðskiptahalla og batnandi atvinnuástandi.

Í þessari þjóðhagsspá fjármálaráðuneytisins var gert ráð fyrir því að á árinu 2011 yrði hér um 4,4% hagvöxtur og að á árinu 2012 yrði hagvöxtur um 3,1%. Niðurstaðan er sú að við rétt komumst upp í 2,5% hagvöxt. Og því miður er sá hagvöxtur ekki drifinn áfram af nýframkvæmdum, af fjárfestingu í atvinnulífinu, heldur af einkaneyslu og úttekt á séreignarsparnaði. Nú hefur ríkisstjórnin gefið heimild til þess að sækja um 3 milljarða í viðbót vegna úttektar á séreignarsparnaði. Í mínum huga er þetta grafalvarleg staða, í mínum huga er þetta til marks um það að ríkisstjórninni hefur ekki tekist að koma hjólum atvinnulífsins af stað. Þetta gefur því miður til kynna að hér á landi verði áframhaldandi vandræði með tilheyrandi samdrætti og niðurskurði hjá ríkissjóði.

Í Hagsjá Landsbanka Íslands er vitnað í mat Hagstofunnar. Þar segir, með leyfi forseta:

„Samkvæmt fyrsta mati Hagstofunnar reyndist landsframleiðslan á 3. ársfjórðungi vera 445 milljarðar kr. Landsframleiðslan jókst um 2,1% að raungildi miðað við sama tímabil 2011 og 3,5% miðað við næsta ársfjórðung á undan (árstíðarleiðrétt). Á fyrstu níu mánuðum ársins jókst hún hins vegar um 2,0% miðað við sama tímabil 2011.

Þær opinberu spár sem hafa verið birtar undanfarinn mánuð gera ráð fyrir að hagvöxtur á árinu verði á bilinu 2,2% (Hagfræðideild Landsbankans) til 2,5% (Hagstofa Íslands). Miðað við þær tölur sem Hagstofan birti fyrir helgi verður að teljast ólíklegt að þessar spár gangi eftir.“

Greiningaraðilar eru því svartsýnni á að við náum hér að koma upp tilheyrandi hagvexti. Eitt atriði gæti þó gert það að verkum að hagvöxtur yrði sá sem við vildum hér á Íslandi og það er að koma framkvæmdum á Bakka við Húsavík af stað, svo ekki sé minnst á þær framkvæmdir sem stefnt er að á Reykjanesi. Bara þær einar og sér gætu gert það að verkum að hagvöxtur á Íslandi ykist um jafnvel 1–2 prósentustig.

Í fjárlagafrumvarpinu sem hér er til umræðu eru engar tillögur um að setja fjármagn í þá innviði sem þurfa nauðsynlega að vera til staðar á Húsavík og í Þingeyjarsýslum til að framkvæmdir geti farið af stað.

Við skulum minnast þess þegar ráðherra Samfylkingarinnar setti uppbygginguna á svæðinu í mikið uppnám með því að ákveða að tilteknir þættir yrðu að fara í svokallað sameiginlegt mat. 2008 eða 2009 kom ég hér í ræðustól Alþingis og benti á að það mundi þýða að framkvæmdirnar tefðust um að minnsta kosti tvö ár. Því miður er bara enginn vilji hjá þessari ríkisstjórn til að koma þessum framkvæmdum af stað.

Heimamenn hafa hins vegar ekki misst móðinn, harðgert fólk og duglegt, og hafa ítrekað sest niður með stjórnvöldum, gert áætlanir, viljayfirlýsingar sem stuðla að því að þessar framkvæmdir geti orðið að veruleika. Í einni slíkri kom fram að ríkisstjórnin skyldi beita sér fyrir því að störfum í heilbrigðismálum þar mundi ekki fækka, að staðinn yrði vörður um heilbrigðisþjónustuna á svæðinu.

Hvað gerðist? Jú, ríkisstjórnin lagði fram tillögur um að Heilbrigðisstofnun Þingeyinga yrði skorin niður um 40% og óbætanlegt tjón unnið á þessari þjónustu sem íbúar svæðisins þurfa nauðsynlega á að halda. Nú á ekki að leggja fjármuni í þessa nauðsynlegu innviði og við höfum haft hér til umræðu hina svokölluðu rammaáætlun sem sérfræðingar GAMMA ehf. telja að muni leiða til minni fjárfestingar í orkuframleiðslu og flutningi um 120 milljarða kr. á árabilinu 2012–2016. Þá erum við að tala um þær breytingar sem voru gerðar hjá ráðherrum þessarar ríkisstjórnar miðað við þá skýrslu sem kom frá hinum svokallaða starfshópi sem hafði unnið þverpólitískt í allnokkurn tíma og mikil og góð samstaða var um.

Virðulegi forseti. Eins og ég kom inn á áðan hefur verklag fjárlaganefndar því miður ekki verið eins og best verður á kosið. Til þess að vera sanngjarn hefur samt ýmislegt breyst í rétta átt, til dæmis var stofnaður sérstakur undirhópur til að fara yfir skýrslur frá ríkisendurskoðanda og þær hlutu náð fyrir augum meiri hluta nefndarinnar. Þar sem gert var ráð fyrir að stjórnarandstaðan ætti einn fulltrúa óskaði ég sérstaklega eftir sæti í þessum undirhópi. Sjálfstæðisflokkurinn á þrjá fulltrúa í fjárlaganefnd en Framsóknarflokkurinn einn og mér fannst rétt að ég fengi að sitja fundina. Þeir hafa verið góðir og fyrir þá er vert að þakka.

Þrátt fyrir yfirlýstan vilja um að bæta fjárlagaferlið og lærdómsferð til Svíþjóðar er skipulag þinglegs fjárlagaferlis algjörlega óviðunandi að mati þess sem hér stendur. Því miður ber öll vinna við frumvarpið þess merki að kosningar eru í nánd og ráðherrar sem og þingmenn veita gæluverkefnum forgang og takmörkun á fjármagni ríkisins. Það er vert að geta þess að sú fjárlaganefnd sem hefur starfað ákvað að taka hina svokölluðu safnliði út úr vinnu fjárlaganefndar þrátt fyrir ítarlegar ábendingar um að það mundi skaða verklagið og gera það að verkum að vinna við þessa liði yrði ófaglegri og ógagnsærri. Það er akkúrat það sem hefur gerst, virðulegi forseti, auk þess sem fjárframlög til vaxtarsamninga, ýmissa verkefna sem snúa að menningu og listum, sérstaklega á landsbyggðinni, hafa lent milli stafs og hurðar.

Það var fullyrt að vinnan yrði faglegri, að þar með yrði þetta komið úr pólitísku argaþrasi yfir í hendurnar á faglegri aðilum sem ættu að hafa einhvers konar sérþekkingu á þessu sviði. Starfsmenn ráðuneytanna búa ekki yfir meiri sérþekkingu en þeir þingmenn sem eru úr tilteknum kjördæmum og vinna við fjárlagagerðina nánast á hverjum einasta degi. Við verðum líka að horfa til þess að í stjórnarskrá Íslands er kveðið á um það að ekki sé hægt að ákveða nein fjárútlát nema ákvörðunin komi frá Alþingi. Það er fjárlaganefndar fyrst og fremst að ákveða meðferð fjármuna almennings á Íslandi, lýðræðislega kjörinna fulltrúa. Hluti af þessum fjármunum var sendur heim í héruð. Þar var sagt að heimamenn ættu að taka ákvarðanir og í sjálfu sér hljómaði þetta ekkert illa nema þegar menn fóru að athuga hverjir þessir svokölluðu heimamenn ættu að vera. Jú, það voru sveitarstjórnarfulltrúar, einhverjir tilteknir óskilgreindir aðilar sem höfðu meiri þekkingu og tilfinningu fyrir því hvaða verkefni ætti að styðja umfram önnur.

Á Austurlandi hefur til að mynda verið gríðarleg óánægja með það verklag sem ríkisstjórnin kom á. Í fyrsta lagi greindi menn verulega á um hvar ætti að setja fjármuni niður. Sveitarstjórnarmenn eru kosnir til þess að gæta hagsmuna síns byggðarlags. Loksins þegar menn gátu komið sér saman um tillögur voru þær sendar ráðuneytunum og þeim jafnvel breytt vegna þess að ráðuneytin gátu sjálf ekki komið sér saman um hvaða verkefni ættu að fá styrk, þau voru kannski ekki alveg búin að átta sig á því hvernig fyrirkomulagið innan ráðuneytanna væri vegna þess að það var einmitt verið að stokka þau upp, með tilheyrandi kostnaði. Allt hefur þetta leitt af sér ófaglegri, ógagnsærri og, kannski síðast en ekki síst, ósanngjarnari vinnubrögð.

Hér áður fyrr gátu aðilar sem vildu byggja upp nýsköpunarverkefni sótt um fjárframlög til Alþingis og fengið viðtal hjá nefndinni. Það var hlustað á alla. Allir áttu að fá tækifæri til að koma sínum sjónarmiðum að. Það var algjörlega tekið fyrir slíkt verklag. (Gripið fram í.) Enginn hefur fengið að njóta þess að öll fjárlaganefnd gæti hlustað nema þegar í ljós kom að einstaka verkefni komust inn á fjárlög ríkisins bara vegna þess að þessir aðilar höfðu hringt beint í einstaka þingmenn meiri hlutans. Þetta var ekki rætt í fjárlaganefnd.

Virðulegi forseti. Þetta eru ósanngjarnari vinnubrögð en áður. Þegar stefnt er að því að ná auknum aga og að fjárlagaferlið verði gagnsærra hlýtur þessari ríkisstjórn að hafa gjörsamlega mistekist í því verkefni sem hún ætlaði sér að vinna.

Frumvarp til fjárlaga fyrir árið 2013 var afgreitt úr fjárlaganefnd til 3. umr. á miklum hraða. Það var ekki gefið færi á að leita til umsagnaraðila um einstök mál og fá gögn með nánari upplýsingum um forsendur tillagna meiri hlutans en ætlunin var að dreifa gögnum síðar til nefndarmanna í tölvupósti. Þau höfðu ekki borist við vinnslu nefndarálits. Ég óskaði til dæmis eftir því að gerð yrði úttekt á þeim fjármunum sem runnu til einstakra verkefna á árum áður og hvaða verkefni nytu nú stuðnings frá íslenskum stjórnvöldum. Þær upplýsingar liggja ekki fyrir. Samt voru allir þingmenn í fjárlaganefnd sammála um að það væri galið að klára fjárlagafrumvarpið án þess að þessar upplýsingar lægju fyrir, en þær hafa því miður ekki borist þrátt fyrir þessa samþykkt. Ég held að það sé algjörlega borin von að þær berist á milli jóla og nýárs vegna þess að þá verður væntanlega löngu búið að samþykkja þetta fjárlagafrumvarp.

Þann 10. desember sl. barst minni hluta fjárlaganefndar svar við skriflegri beiðni um gögn til fjármálaráðuneytisins, sem var dagsett 6. nóvember sl. Þessi beiðni hafði reyndar verið ítrekuð á fundi í fjárlaganefnd við starfsmenn ráðuneytisins og síðar ráðherra fjármála á fundi með nefndinni. Í svarinu kemur fram að ráðuneytið hafi ekki undir höndum beiðnir eða tillögur einstakra stofnana til fagráðuneyta um framlög á fjáraukalögum fyrir árið 2012. Það er mat ráðuneytisins að ákvæði 51. gr. þingskapalaga eigi ekki lengur við þar sem fjáraukalög fyrir árið 2012 hafi verið afgreidd frá Alþingi 19. nóvember. Með öðrum orðum lítur ráðuneytið þannig á að ef það hummar fram af sér að skila skýrslu sem fjárlaganefnd biður um með lögmætum hætti og að það sé búið að afgreiða frumvarpið falli beiðnin einfaldlega niður. Þetta eru svo gjörsamlega óviðunandi vinnubrögð.

Megum við þá eiga von á því að það yfirlit sem ég óskaði eftir að gert yrði og samanburður á þeim verkefnum sem hafa hlotið náð fyrir augum starfsmanna ráðuneytanna núna og fengu framlög úr fjárlaganefnd komi ekki vegna þess að það sé búið að afgreiða fjárlögin og þar með falli beiðnin niður? Ráðuneytið segir bara: Þetta er bara ekkert mál, þetta eru óþægilegar upplýsingar sem sýna svart á hvítu að fjárframlög til menningartengdra verkefna úti á landsbyggðinni eru mun minni — það hefur reyndar komið fram að menningarsamningur Eyjafjarðar skertist um 43% — og við bara bíðum og sjáum til.

Þetta eru því miður algjörlega óviðunandi vinnubrögð, virðulegi forseti.

Ég vík þá að tillögum meiri hlutans um fjárframlög til byggingar nýs Landspítala. Eins og ég hef haft orð á var sagt að tillögurnar kæmu fram fyrir 3. umr. Engar slíkar tillögur bárust. Hins vegar hefur meiri hlutinn boðað að frumvarp verði lagt fram þar sem nýtt rekstrarform spítalans verði kynnt. Það liggur fyrir, virðulegi forseti, að gríðarlegur kostnaður muni lenda á ríkissjóði verði frumvarpið samþykkt og það er ekki annað hægt en að gagnrýna slík vinnubrögð harðlega. Slíkar tillögur þarfnast vandlegrar yfirferðar, sérstaklega þegar staða ríkissjóðs er jafnveik og raun ber vitni. Málsmeðferðin sem er lýst í síðara nefndaráliti meiri hlutans er í engu samræmi við afgreiðslu málsins 11. júní 2010 en þar var lögð fram breytingartillaga sem ég beitti mér fyrir vegna þess að ég gat ekki samþykkt á þeim tíma að farið yrði af stað í verkefnið, en þá var sagt að það ætti að tryggja aðkomu Alþingis að málinu. Þann 11. júní 2010 var lögð fram breytingartillaga sem sérstaklega var gerð til þess að tryggja aðkomu Alþingis að málinu.

Það er ekki í samræmi við samkomulagið að fjármagna sjúkrahótel og skrifstofu- og bílastæðahús með leiguleið samkvæmt lögum nr. 64/2010 en breyta síðan lögunum til að byggja sjálft sjúkrahúsið með hefðbundinni fjármögnun úr ríkissjóði. Í raun ættu fjárlögin að vera tekin til afgreiðslu á nýjan leik í janúar eða febrúar á næsta ári en því miður erum við nú að afgreiða fjárlögin þótt ófullburða séu.

Það var fullyrt á sínum tíma að hægt væri að ná fram um 3 milljarða hagræðingu á hverju einasta ári með byggingu nýs Landspítala. Í fyrstu var talað um að það ætti að stytta vegalengdir og að það eitt og sér mundi skapa þá hagræðingu að það væri hægt að spara fjármagn. Nú liggur fyrir að það er lítill sem enginn tímasparnaður vegna þess að það á ekki að byggja upp í loftið heldur verður þetta á svipuðu svæði og áður hefur verið. Þá var fullyrt að það mundi nást fram hagræðing með því að færa bráðamóttökuna á einn stað. Það er búið að færa bráðamóttökuna á einn stað. Hagræðingunni verður ekki náð á hverju einasta ári vegna þess að það er bara hægt að gera þetta einu sinni, auk þess sem hagræðingin sparaði 80 millj. kr. ef ég man rétt. Ég segi það með fyrirvara um að ég muni það rétt að sú hagræðing hafi náð um 80 millj. kr. sparnaði.

Það er fullyrt að á nýjum landspítala verði hægt að færa starfsemina meira á dagvaktir. Gott og vel, það er ágætt út af fyrir sig. En um leið er fullyrt að það eigi ekki að segja neinu starfsfólki upp og það eigi ekki að lækka laun. Hvernig má það vera að það sé hægt að ná fram þessari hagræðingu ef það á ekki að segja upp starfsfólki og ekki lækka laun? Að sjálfsögðu hækka starfsmenn tekjur sínar með því að vinna á vöktum, það vita allir. Og hvernig er það, er hægt að færa starfsemi bara sisona á dagvakt? Ég held að hver einasti maður sjái að eðli málsins samkvæmt þarf vakt allan sólarhringinn. Þetta bara gengur ekki upp, virðulegi forseti.

Síðan er talað um að byggja hið svokallaða sjúkrahótel, gott og vel, og að þar eigi þá að nást fram hluti af þessari 3 milljarða hagræðingu á hverju ári. Það er fullyrt að enginn aukakostnaður eigi að lenda á sjúklingum við það að liggja inni á þessu sjúkrahóteli. Ég á erfitt með að sjá fyrir mér að það verði að veruleika.

Það liggur líka fyrir að ef það á að minnka þjónustuna við þá sem nú liggja inni þýðir það líka að það þarf að segja einhverjum upp eða þá að lækka launin hjá einhverjum tilteknum starfsmönnum. Annars næst hagræðingin ekki fram.

Það þarf að ráðast í endurbætur á Landspítalanum, um það eru allir sammála, en þurfum við ekki að fara betur yfir forsendur fyrir byggingu nýs Landspítala – háskólasjúkrahúss áður en lengra er haldið í ljósi bágrar stöðu ríkissjóðs? Ég held að það sé algjört frumskilyrði.

Samkvæmt skipulagi Reykjavíkurborgar á að færa flugvöllinn í Vatnsmýrinni úr Reykjavík fyrir árið 2024. Hvernig getur farið saman að ráðast í stærstu framkvæmd Íslandssögunnar þegar það liggur fyrir í aðalskipulagi Reykjavíkurborgar að flugvöllurinn skuli vera farinn fyrir árið 2024? Ég spurði þá sem komu á fund nefndarinnar hverju þetta sætti, hvort gert væri ráð fyrir því að flugvöllurinn yrði. Fyrst var sagt að það yrði að sjálfsögðu gert ráð fyrir því að hann yrði á sama stað. Þegar ég benti á að það lægi fyrir í opinberum gögnum að hann yrði fluttur í burtu, sem vonandi verður ekki að veruleika, sögðu þeir: Ja, við bara vorum ekkert að velta þessu sérstaklega fyrir okkur.

Það er verið að breyta heilbrigðiskerfi landsmanna. Það er búið að breyta heilbrigðiskerfi landsmanna í gegnum fjárlög íslenska ríkisins. Margar heilbrigðisstofnanir eiga í það miklum rekstrarvanda að þær hafa þurft að leita til lánastofnana til að fá lán til þess að standa undir rekstri, til að halda uppi grunnþjónustu við íbúa þess svæðis sem þau eiga að sinna. Hvernig getur það farið saman að skerða þjónustu úti á landi og byggja háskólasjúkrahúsið á þessum stað meðan allt er upp í loft um hvort Reykjavíkurflugvöllur verði á sama stað eða ekki?

Ég átta mig vel á því að þingmenn meiri hlutans sitji hér hljóð. Þetta gengur einfaldlega ekki upp. Ég er sannfærður um að andstaðan við þessa uppbyggingu úti í samfélaginu er mun meiri en ríkisstjórnin vill vera láta. Þetta er svipuð staða og kom upp þegar loksins var gerð skoðanakönnun á því hvort Reykvíkingar vildu hafa flugvöllinn áfram í Vatnsmýrinni eða ekki. Þá vildi meiri hlutinn hafa hann áfram, yfir 60% Reykvíkinga eru þeirrar skoðunar að flugvöllurinn eigi að vera áfram í Vatnsmýrinni.

Virðulegi forseti. Við höfum verið að ræða rammaáætlun og nú erum við að ræða fjárlög íslenska ríkisins. Bæði þessi mál eru það stór í sniðum að þau koma til með að ráða framtíð þjóðar okkar. Þau munu hafa áhrif á það hvaða lífsgæði við munum búa við á komandi árum. Umræðan var varla hafin um rammann áður en meiri hlutinn var farinn að tala endurtekið um málþóf. Það má vel vera að það séu einhvers staðar mörk þar sem umræðan er tæmd. Ég ætla samt að vona að það fjárlagafrumvarp sem hér er rætt við 3. umr. fái efnislega og málefnalega umræðu. Ég hvet þingmenn meiri hlutans til að eiga orðastað við okkur í minni hlutanum. Það er lykilatriði að við ræðum það hvernig við ætlum að ná upp hagvexti á Íslandi, hvernig við ætlum að skapa fleiri störf, búa til auknar tekjur fyrir ríkissjóð til að geta byggt upp velferðarsamfélagið okkar á ný.

Ríkisstjórnin fullyrti að hún yrði norræn velferðarríkisstjórn. Þar hefur henni fyrst og fremst mistekist. Það var ekkert annað en raunalegt að fylgjast með því þegar hæstv. fjármálaráðherra, hæstv. velferðarráðherra og fleiri fullyrtu í ræðustól á sínum tíma að fjárframlög hefðu verið aukin til velferðarmála og tóku inn í pakkann 20 milljarða aukningu í Atvinnuleysistryggingasjóð. Hér var aukið atvinnuleysi, það þurfti að setja meiri pening til atvinnulausra og þá var það talið til tekna og fullyrt að það væri verið að auka framlög til velferðarmála á Íslandi. Þetta er einfaldlega staðan.

Brýnasta verkefni fjárlaganefndar það sem eftir er af þessu kjörtímabili er að breyta fjárreiðulögunum þannig að á Íslandi komist á svipaður agi og Svíar eru með á sinni fjárlagagerð. Ramminn þarf að vera þannig úr garði gerður að það hvarfli ekki að nokkrum ráðherra eða þingmanni að fara út fyrir hann.

Nú stendur til að breyta stjórnarskránni þannig að ráðherrar geti komið fyrir fjárlaganefnd telji þeir að það séu einhver ófyrirséð útgjöld. Í Svíþjóð var tekið fyrir að ráðherrar hefðu fjármuni til að spila úr. Það fer allt í gegnum fjárlaganefnd og ef það er einhver beiðni um eitthvað ófyrirséð, og þá þannig að það hafa orðið ófyrirséðir atburðir, hamfarir og annað slíkt, er hún afgreidd í algjörum undantekningartilvikum. Þeir eru með sjálfstæðan gjaldmiðil, sænsku krónuna, jafnvel þó að þeir séu í Evrópusambandinu. Þeir segja: Við teljum nauðsynlegt að halda í okkar krónu til þess að geta brugðist við sveiflum í atvinnulífinu, en til þess verðum við líka að virða þann aga sem þarf að vera á fjárstjórn ríkisins. Ríkissjóður er stærsti einstaki áhrifaþátturinn á hagvöxt og vísitölu.

Að lokum, virðulegi forseti, af því að tíminn er að renna út vil ég ítreka þakkir mínar til félaga minna í fjárlaganefnd fyrir gott og ánægjulegt samstarf, ekki bara á þessu hausti heldur á öllu kjörtímabilinu.