141. löggjafarþing — 55. fundur,  18. des. 2012.

sjúkratryggingar.

303. mál
[22:25]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Þetta frumvarp vekur mikla furðu. Það er fullkomlega óskiljanlegt af hverju við höfum rætt um samsvarandi frumvarp á sama tíma árið 2009, árið 2010, árið 2011 og núna árið 2012.

Ég spyr hv. þingmann: Hvernig má það vera að þrátt fyrir fögur fyrirheit um hver einustu áramót að ekkert hafi verið gert í þessu? Núna skiptir það náttúrlega engu máli því að þessi ríkisstjórn er sem betur fer að fara en það er bara fróðlegt fyrir söguna. Hvers konar dugleysi er þetta? Þetta hlýtur að vera einhvers konar met, virðulegi forseti. Hvers vegna hefur ekkert verið gert í þessu? Þetta snýst um tilfærslu á milli starfsmanna frá Landspítalanum, heilbrigðisráðuneytinu og heilsugæslunni á höfuðborgarsvæðinu og sjúkratryggingunum og að klára það verk sem farið var af stað með í tíð ríkisstjórnar Samfylkingar og Sjálfstæðisflokks, sem hv. samfylkingarþingmenn töluðu um. Það var stefna beggja flokka að búa til sjúkratryggingastofnun með það að markmiði að ná fram betri samningum og bæta nýtingu fjármuna og þjónustu fyrir fólkið í landinu, þ.e. sem þarf á þessari þjónustu að halda. Hvers konar dugleysi er það að koma núna enn og aftur með þetta frestunarmál? Hvaða skýringar eru á því, því að það er fullkomlega óskiljanlegt?

Hefur hv. þingmaður ekki áhyggjur af því að hér sé verið að fara með mál yfir í reglugerð sem ætti að vera í lagatexta? Er það í anda þess sem hv. þingmaður vill sjá? Vill hv. þingmaður færa aukið vald til framkvæmdarvaldsins frá þinginu með því að búa til reglugerðarheimildir? Það er það sem gert er í þessu frumvarpi.