141. löggjafarþing — 56. fundur,  19. des. 2012.

störf þingsins.

[10:58]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (F):

Virðulegur forseti. Ástæða er til að ítreka ábendingar hv. þm. Eyglóar Harðardóttur um mikilvægi þess að Alþingi fái aðkomu að því sem nú stefnir í að gerist áður en langt um líður, þ.e. að samið verði á einn eða annan hátt við þrotabú gömlu bankanna um greiðslur úr þeim.

Eins og hv. þingmaður lýsti er hér um að ræða gífurlega hagsmuni fyrir þjóðarbúið allt og raunar svo mikla að allt annað, möguleikar okkar þingmanna á að fást við önnur mál, hangir á því hvernig þetta mál verður leyst. Það er því algerlega óásættanlegt fyrir Alþingi ef því verður haldið frá því hvernig þetta mál verður leitt til lykta.

Jafnframt er ástæða til að taka undir þær ábendingar sem hér hafa komið fram um það að ríkisstjórnin og stjórnarmeirihlutinn þurfi að gera hreint fyrir sínum dyrum gagnvart Ríkisendurskoðun. Þetta eru kannski ekki óskyld mál vegna þess að bæði varða þau eftirlit með gjörðum stjórnvalda. Þrátt fyrir allar hástemmdu yfirlýsingarnar um gagnsæi og víðtækt samráð hefur jafnvel í stærstu málum vantað mjög mikið, stundum allt, upp á það að stjórnarandstaða í þinginu hafi nokkra aðkomu að málum.

Þegar málum er svo komið að halda þá jafnvel Ríkisendurskoðun frá því að gegna lögbundnu hlutverki sínu gagnvart stjórnvöldum — og auk þess að halda þinginu öllu frá því að hafa eftirlit með stærstu málum efnahagslífsins, málum sem eins og ég nefndi áðan geta varðað allt annað og möguleika okkar á því að fást við öll þau stóru vandamál sem samfélagið stendur frammi fyrir — þá erum við komin á hættulegt stig með stjórnvöld. Því er ástæða til að hvetja menn til að snúa af þessari leið, gera hreint fyrir sínum dyrum gagnvart eftirlitsstofnunum og ekki hvað síst gagnvart þeirri eftirlitsstofnun sem þingmenn starfa í, Alþingi sjálfu.