141. löggjafarþing — 56. fundur,  19. des. 2012.

menntun og ráðning kennara og skólastjórnenda við leikskóla, grunnskóla og framhaldsskóla.

190. mál
[11:18]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (S) (um atkvæðagreiðslu):

Frú forseti. Þetta mál finnst mér vera dásamlegt dæmi um hvernig þingið kemur til móts við ákveðinn hóp fólks sem tímabundið á í vanda vegna þess að allir stjórnmálaflokkar á þingi stóðu á sínum tíma fyrir því að reyna að efla kennaramenntun með því að lengja hana í fimm ár. Hins vegar vil ég brýna okkur, ráðherra og ekki síst þá sem eru í allsherjar- og menntamálanefnd, að eiga það samtal sem þarf um það hvernig við viljum að þróun og efling kennaramenntunar verði, hvernig við ætlum að sjá þessum fimm árum varið innan háskólanna. Ég vil gjarnan að það samtal verði milli ráðherra, þingsins, sveitarstjórna, heimila og kennara. Hvernig getum við stuðlað að því að efla kennaramenntun og styrkja þar með kennsluhætti í landinu? Ég hefði til að mynda kosið að hluti af þessum fimm árum færu í starfsnám í skólunum. Þetta samtal á hins vegar eftir að fara fram og ég vonast til að ráðherra hafi frumkvæði að því.