141. löggjafarþing — 57. fundur,  19. des. 2012.

fjárlög 2013.

1. mál
[15:49]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ræðuna. Í upphafi hennar talaði hann töluvert um þann árangur sem hefur náðst í ríkisfjármálunum og um að frumvarpið sem nú lægi fyrir væri staðfesting á því.

Ég vil spyrja hv. þingmann hvort hann sé ósammála okkur í 1. minni hluta um að í fjárlagafrumvarpinu sé innbyggður að lágmarki 25 millj. fjárlagahalli. Ég gæti nefnt tvennt sérstaklega, þótt það sé talið upp í nefndarálitinu, m.a. það sem snýr að innviðauppbyggingunni á Bakka og hv. þingmaður kom inn á í 2. umr. og hv. formaður fjárlaganefndar svaraði í gær. Það kæmi inn í fjáraukalögin og verður auðvitað að gera það til að standa undir þeim hagvexti sem fjárlagafrumvarpið og tekjugrein þess byggir á. Það er líka sagt í ljósi þess að þegar menn töluðu á sama hátt um árangurinn 2010 og 2011 var niðurstaða ríkisreiknings, fjárlaga og fjáraukalaga nefnilega allt öðruvísi. Árið 2011 munaði ekki nema tæpum 49 milljörðum og 42 milljörðum 2010 þannig að allt stefnir aftur í það.

Síðan vil ég spyrja hv. þingmann um þann aðgang að upplýsingum sem við í minni hlutanum í hv. fjárlaganefnd höfum kallað eftir. Mig langar að nefna tvö dæmi: Annars vegar eru það upplýsingar um sameiginlegt minnisblað sem var samþykkt í hæstv. ríkisstjórn 30. nóvember um breytingar sem koma að uppbyggingu nýs Landspítala. Okkur var tjáð á þeim fundi að formaður nefndarinnar ætlaði að koma upplýsingunum til okkar en þær hafa ekki enn borist. Ég vil fá álit hv. þingmanns á því. Hins vegar eru það upplýsingar um svokallaða náttúruminjasýningu í Perlunni en þar var vísað til samstarfssamnings sem við höfum heldur ekki fengið aðgang að.

Ég vil spyrja hv. þingmann sérstaklega um þessa þrjá hluti því í hv. fjárlaganefnd hefur hann ekki reynt að halda upplýsingum frá heldur frekar verið talsmaður þess að þær kæmust til þeirrar nefndar sem kallar eftir þeim.