141. löggjafarþing — 58. fundur,  20. des. 2012.

tillaga um frestun viðræðna við ESB.

[10:49]
Horfa

Einar K. Guðfinnsson (S):

Virðulegi forseti. Það er byggt á reynslu minni sem ég spyr hæstv. ráðherra um þetta mál vegna þess að það er ekki þannig að málið sé að detta ofan af himnunum. Við höfum verið að ræða þessi mál alveg frá því að ákvörðun Alþingis lá fyrir og spurningin um það hvernig halda ætti að áfram viðræðum hefur hvað eftir annað komið upp á yfirborðið, m.a. í ágúst, eins og ég var að nefndi áðan, þar sem hæstv. ráðherrar úr hópi vinstri grænna og þingmenn úr þeim þingflokki kölluðu eftir því sem kallað var endurmat. Ég tel að hæstv. ráðherra geti ekki skákað sér fram hjá því að svara þeirri spurningu hver sé afstaða hans til málsins.

Hæstv. ráðherra vísar til ríkjaráðstefnu og síðan þurfi menn að fara að ræða þessi mál. Hæstv. ráðherra hlýtur að hafa skoðun á því með hvaða hætti halda skal á málinu. Á að setja það á ís? Á að gera styttra hlé? Á að kalla eftir viðhorfum þjóðarinnar o.s.frv.?

Varðandi það að Sjálfstæðisflokkurinn móti afstöðu sína í samstarfi við hv. Jón Bjarnason (Forseti hringir.) er tillagan algerlega í samræmi við landsfundarályktun Sjálfstæðisflokksins og ég fagna því auðvitað að sem flestir komi að því viðhorfi sem við mótuðum þar.