141. löggjafarþing — 58. fundur,  20. des. 2012.

fjárlög 2013.

1. mál
[12:37]
Horfa

Eygló Harðardóttir (F):

Virðulegi forseti. Ástæðan fyrir því að ég kem hingað upp er að mig langaði til að deila með frú forseta og þingheimi sögu eða lýsingu sem góður félagi minn sagði mér. Ég bauð honum í heimsókn í þinghúsið og við settumst niður og fórum að ræða meðal annars um fjárlagagerð. Hann sagði mér að hann hefði búið í þó nokkuð mörg ár í Danmörku og fór að lýsa því hvernig væri staðið að fjárlagagerðinni þar. Miðað við lýsinguna gæti það ekki verið ólíkara því hvernig við stöndum að okkar fjárlagagerð.

Þar sagði hann að við upphaf fjárlagagerðarinnar sjálfrar, ekki þegar málið kemur inn í þingið heldur við upphaf fjárlagagerðarinnar, er öllum stjórnmálaflokkum boðið að setjast við sama borð. Síðan tekur hver og einn flokkur afstöðu til þess hvað það er sem þeir vilja leggja áherslu á og hvað er það sem þeir eru tilbúnir til að styðja, bæði á tekjuhliðinni og útgjaldahliðinni. Þegar menn eru komnir að þeim mörkum sem stefna viðkomandi flokks segir til um standa þeir upp frá borðinu. Oft vill það verða þannig að kannski einn flokkur, sem er jafnvel í ríkisstjórninni sjálfri, situr eftir við borðið og klárar það sem eftir er.

Þegar ég hlustaði á þennan félaga minn lýsa þessu verð ég að viðurkenna að ég varð mjög hissa. Þetta var eitthvað sem ég kannaðist alls ekki við úr störfum þingsins hér.

Það líður nú að kosningum. Ég veit ekki hversu oft ég hef heyrt þingmenn, nánast hvern einasta þingmann sem hér situr, koma upp í ræðustól og tala um að við höfum lofað breyttum vinnubrögðum og við viljum gera hlutina öðruvísi. Ég held að við séum öll sammála um að við erum ekki sátt við þetta fyrirkomulag, hvort sem við erum í stjórn eða stjórnarandstöðu. Ég vil gjarnan heita á þingheim eftir kosningar, óháð því hverjir verða í ríkisstjórn, að velta því alvarlega fyrir sér hvað við getum gert til að breyta þessu fyrirkomulagi vegna þess að ég held að við séum öll sammála um að þetta geti ekki gengið. (Gripið fram í: Heyr, heyr.)