141. löggjafarþing — 58. fundur,  20. des. 2012.

fjárlög 2013.

1. mál
[13:50]
Horfa

Atli Gíslason (U) (um atkvæðagreiðslu):

Frú forseti. Ég og hv. þm. Lilja Mósesdóttir flytjum fjölda breytingartillagna við fjárlög hér við 3. umr. Við forgangsröðun í tillögum okkar í þágu velferðar og félagshyggju og fyrir grunnstoðir samfélagsins. Við forgangsröðum fyrir heilsugæslu, löggæslu, til átaksverkefnis gegn kynbundnum launamun. Við viljum veita fjármuni til að vinna gegn kynbundnu ofbeldi og eru rökin sótt lóðbeint í samstarfsyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar, sem ég vísa til.

Ein tillagan lýtur að átaki næstu þriggja ára til þriggja fasa rafvæðingar á landsbyggðinni sem er grænt og gott mál og mikið framfaramál.

Nú fara í hönd kosningar og mun þjóðin, og þá sérstaklega kvenþjóðin, fylgjast grannt með afdrifum þessara tillagna. Ég vona að stjórnarþingmönnum sé sama hvaðan gott kemur. Ég vek athygli á því að tillögurnar leiða ekki til útgjaldaaukningar nettó.