141. löggjafarþing — 59. fundur,  20. des. 2012.

sala á eignarhlutum ríkisins í fjármálafyrirtækjum.

151. mál
[18:58]
Horfa

Eygló Harðardóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka þingmanninum svarið. Ég verð hins vegar að segja að ég er algjörlega ósammála því sem þingmaðurinn segir, að þetta uppfylli það sem kom fram bæði í skýrslu þingmannanefndarinnar, sem ég sat í, og í skýrslu starfshóps forsætisráðherra. Það er ekki verið að tryggja nægilega vel aðkomu Alþingis að ákvörðunarferlinu og ekki verið að gæta nægilega vel að því að Alþingi horfist í augu við ábyrgð sína á því að selja eignarhlut ríkisins í fjármálafyrirtækjum og raunar ríkisfyrirtækjum almennt.

Það er líka annað sem ég staldraði við í nefndaráliti meiri hluta fjárlaganefndar og áhugavert væri að heyra frá þingmanninum hvernig hann skilur það. Hver er ástæðan fyrir því að aftur er farið að tala hér um kjölfestufjárfesta líkt og var gert í aðdraganda fyrstu einkavæðingarinnar? Eru einhver ákveðin rök fyrir því að það er talið betra að vera hér með kjölfestufjárfesta frekar en dreift eignarhald? Á hvern máta hyggst þingmaðurinn með þessu frumvarpi, ef það verður að lögum, tryggja hæfi kaupenda (Forseti hringir.) því að hér er fyrst og fremst verið að leggja áherslu á að leita hæsta (Forseti hringir.) markaðsverðs fyrir eignarhlutinn?