141. löggjafarþing — 59. fundur,  20. des. 2012.

sala á eignarhlutum ríkisins í fjármálafyrirtækjum.

151. mál
[19:44]
Horfa

Lilja Mósesdóttir (U) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Kristjáni Þór Júlíussyni fyrir greinargóð svör við spurningunum sem ég lagði fyrir hann.

Það að banna sölu á eignarhlut ríkisins til vogunarsjóða er hugmynd sem skaut upp í kollinn á mér þegar ég las umsögn Seðlabanka Íslands. Þar talar hann einmitt um að það skipti máli hvort eignarhluturinn verði keyptur af erlendum eða innlendum aðila. Á mannamáli þýðir það það að Seðlabankinn er að vara við að við seljum vogunarsjóðum eða eigendum snjóhengjunnar eignarhlut ríkisins í bönkunum. Það er ekkert í frumvarpinu sem bannar það. Það kom breytingartillaga frá meiri hluta fjárlaganefndar að bera þyrfti sölutilboðið undir Seðlabankann en það er ekkert sem bannar hæstv. ráðherra að selja eignarhlut ríkisins til erlendra aðila. Það þykir mér of mikið valdaafsal og ætti að vera eitthvað sem þingheimur mundi ræða áður en við samþykkjum þetta lagafrumvarp á hvern hátt við komum til móts við þessa umsögn Seðlabankans og setjum skorður við því að erlendir aðilar sem eiga eignir í snjóhengjunni kaupi eignarhluti.

Það er alveg rétt að vogunarsjóðir hafa ekki áhuga á að reka banka en þeir hafa áhuga á að komast úr landi með eigur sínar. Þeir geta notað eignarhaldið á bankanum til að gera það til að sniðganga gjaldeyrishöftin. Þá er ekki nóg að treysta á Fjármálaeftirlitið eða Seðlabankann, að þeir séu nógu snöggir að koma í veg fyrir að það gerist.