141. löggjafarþing — 59. fundur,  20. des. 2012.

sala á eignarhlutum ríkisins í fjármálafyrirtækjum.

151. mál
[20:42]
Horfa

Margrét Tryggvadóttir (Hr):

Forseti. Í dag er 20. desember og klukkan að verða níu um kvöld rétt fyrir jól og rétt fyrir þinghlé. Við ræðum á afskaplega stuttum tíma eitt stærsta mál þessa þings og stærsta mál frá hruni, hvort eigi að selja eignarhlut ríkisins í fjármálafyrirtækjum. Það er auðvitað ekki verið að tala um að selja allan Landsbankann heldur það sem er umfram 70% hlut ríkisins af heildarhlutafé bankans.

Mér finnst þetta mjög erfið staða. Mér finnst það einhvern veginn hryllilegt að standa hér og horfast í augu við að stjórnvöld eru að reyna að fjármagna kosningaloforð með arðgreiðslum úr þessum fjármálafyrirtækjum og sölu þetta stuttu eftir algjört hrun. Ég held að ef við hefðum eitthvað lært af hruninu 2008 væri salurinn fullur af fólki að ræða þetta en við erum nokkur. Þó er fólk hér inni og ég veit að það er fólk að fylgjast með sem hefur mikinn áhuga á þessu og miklar áhyggjur.

Hvernig á framtíðarfjármálamarkaðurinn að líta út? Erum við búin að ákveða það? Liggur það fyrir? Ég held að það liggi ekki fyrir. Höfum við búið þannig um hnútana að við þurfum engar áhyggjur að hafa af fjármálamarkaðnum? Ég held ekki. Ég held að það sé full ástæða til að hafa áhyggjur af fjármálamarkaðnum. Við erum ekki búin að teikna upp mynd af því hvernig þetta á að vera. Það sem við vitum er ekki mjög traustvekjandi. Við vitum að bankarnir eru fullir af loftbólueignum sem einhvern tímann þarf e.t.v. að skrifa niður og þá er nú ekki víst að þeir standi lengur í lappirnar.

Þurfum við ekki að hafa mann í stjórnum þessara fyrirtækja? Ég spyr að því. Ég var nú ein af þeim sem voru mjög mikið á móti því þegar Bankasýsla ríkisins var stofnuð en ég hef étið það allt ofan í mig því mér hefur eiginlega fundist það mitt eina haldreipi í þessu öllu saman að vita af því að þar væri einhver að gæta hagsmuna okkar almennings.

Erum við sannfærð um að Fjármálaeftirlitið sé í lagi núna? Þar hafa verið gerðar einhverjar úttektir og annað og unnið ákveðið starf. Erum við sannfærð um að Seðlabanki Íslands hafi eftirlit með því sem hann á að hafa eftirlit með? Við samþykktum hérna 63:0 að það skyldi fara fram stjórnsýsluúttekt á Fjármálaeftirlitinu og Seðlabankanum. Sú stjórnsýsluúttekt hefur ekki farið fram og Seðlabankinn hefur í raun og veru lítið verið skoðaður, Fjármálaeftirlitið mun meira.

Það liggur ekki fyrir hvort við ætlum að hafa eitthvert sameiginlegt eftirlit með fjármálamarkaði. Samkeppni á þetta litlum markaði með svona fáum stórum aðilum er aldrei raunveruleg. Við getum alveg sagt að við viljum hafa samkeppni en það verður ekki. Þetta er fákeppnismarkaður og hann verður það. Jafnvel þótt við fyllum hér allt af sparisjóðum verður þetta fákeppnismarkaður. Þetta er lítið land og fyrirtækin eru sérhæfð. Ég held hreinlega að síðasta tilraun til þess að reka þetta fjármálakerfi á einhverjum samkeppnislegum forsendum hafi ekki endað vel og við erum enn þá á hverjum einasta degi að moka þann skít.

Ég er hreinlega á móti þessu. Ég styð tillögu til rökstuddrar dagskrár sem Lilja Mósesdóttir hefur lagt fram um að málinu verði vísað frá. Þetta er ekki tímabært. Ég held við hljótum að vilja hafa eins mikil ítök í þessum fyrirtækjum og við mögulega getum miðað við hvernig þau eru.