141. löggjafarþing — 59. fundur,  20. des. 2012.

vörugjöld og tollalög.

473. mál
[22:44]
Horfa

Frsm. 2. minni hluta efh.- og viðskn. (Eygló Harðardóttir) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég held að það sé alveg skýrt miðað við þær áherslur sem koma fram í umsögn embættis landlæknis að hækkun á hálfslítra gosi um 2,5 kr. mun varla breyta miklu varðandi neyslu á sykruðum gosdrykkjum. Það er einmitt lögð mjög mikil áhersla í þeim greinum sem ég vitnaði í og þeim greinum sem landlæknir vísar til í umsögn sinni á mikilvægi þess að hækka verulega verð sykraðra gosdrykkja. Menn tengja neyslu á sykruðum gosdrykkjum mjög við þann offitufaraldur sem sést sérstaklega hjá börnum og unglingum. Þar erum við farin að sjá tölur um að allt að því 20% af börnum og unglingum — ég held að ég sé að fara með réttar tölur — flokkast sem of feit eða með líkamsþyngdarstuðul, BMI, einhvers staðar í kringum 30.

Þetta er mjög alvarlegt vegna þess að eftir því sem börnin okkar þyngjast fyrr, eftir því sem þau eru yngri sem þau þyngjast, því alvarlegri verða heilbrigðisvandamál þeirra þegar þau eldast. Ég nefndi þá alvarlegu sjúkdóma sem hægt er að rekja til offitu. Bent hefur verið á að þetta sé leið til þess að takast á við þetta. Hér kemur frumvarp og gefur væntingar um að það eigi að breyta einhverju. Síðan kemur í ljós að í sjálfu sér hefði alveg verið hægt að sleppa því að hafa þetta sem markmið og segja hreint og klárt að við ætlum bara að hækka skatt á sykruðum matvörum og vonast helst til að fólk neyti sem allra mest af þeim.