141. löggjafarþing — 60. fundur,  21. des. 2012.

sala á eignarhlutum ríkisins í fjármálafyrirtækjum.

151. mál
[10:46]
Horfa

Björn Valur Gíslason (Vg) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegur forseti. Hér er alvarlegur misskilningur á ferð hjá þingmönnum varðandi það um hvað þetta frumvarp snýst. Það er ekki verið að taka ákvörðun um að selja eignarhluti ríkisins í fjármálafyrirtækjum með þessu frumvarpi, það er ekki verið að veita ráðherra heimild til þess umfram það sem er í dag. Ráðherra hefur heimild til þess í dag (Gripið fram í: Ekki …) samkvæmt 6. gr. núgildandi fjárlaga, samkvæmt frumvarpi til fjárlaga næsta árs er heimild til þess fyrir fjármálaráðherra að selja eignarhluti ríkisins í sparisjóðunum (Gripið fram í: Sparisjóðunum? …) án nokkurra lagastoða um ferli sölunnar. Um það snýst þetta mál, að lögbinda það að ríkið ætli sér að eiga að lágmarki 70% í stærsta banka landsins. Það er ekkert lögbundið við það í dag. (Gripið fram í.) Það er ekki verið að lögbinda einhvers konar hermiglæp miðað við það sem gerðist hér árið 2002, í einkavæðingu bankakerfisins þá, heldur þvert á móti að setja um það skýra löggjöf (Forseti hringir.) hvernig fara skuli með þessa eignarhluti en ekki að ráðherra hafi um það frjálsar hendur eins og hefur verið hingað til. (Gripið fram í.)